140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:25]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hefði vænst þess að leiðtogi stjórnarandstöðunnar væri kátari með þessa fjárfestingaráætlun og tæki kannski meira undir hana en lengi framan af ræðu hans mátti greina. Það er út af fyrir sig rétt að það hafa orðið tafir á ýmsum verkefnum sem menn höfðu hug á að koma áfram en önnur hafa gengið eftir. Ég sætti mig ekki við að það sé talað eins og það hafi ekki skipt máli að stjórnvöld hafa stuðlað að því til dæmis að nú eru í byggingu hjúkrunarheimili í landinu fyrir samtals líklega um 10 milljarða kr. sem stjórnvöld hafa beinlínis beitt sér fyrir að koma af stað. Það eru verulega stór verkefni eins og undirbúningur undir byggingu Landspítalans og hönnunarsamkeppni þar. Við getum tekið verkefni eins og átakið Allir vinna, við getum tekið markaðsstuðninginn við ferðaþjónustuna, bæði í kjölfar gossins og síðan vetrarferðamennskuátakið núna sem að minnsta kosti á þátt í því eða hjálpar til við þá gífurlegu aukningu og mikla vöxt sem er í þeirri grein, enda eru okkar aðstæður að lagast verulega. Það er rétt að hafa það í huga að við erum að bæta hér við og styðja við þann bata, þann hagvöxt sem þegar er hafinn. Hér er núna í gangi einhver mesti hagvöxtur sem við finnum í Evrópu og innan OECD. Vinnumagn er að aukast umtalsvert og störfum að fjölga, atvinnuleysi er á niðurleið. Í aprílmánuði sl. sáum við lægstu atvinnuleysistölu í þrjú ár og þannig mætti áfram telja. Það sem hér er verið að leggja til og ég tel sérstaklega ánægjulegt og efnahagslega skynsamlegt er að nota nú það svigrúm sem fram undan er með skynsamlegum hætti til að styðja við þennan bata og gera hann enn kraftmeiri þannig að við komumst hraðar upp úr þessu núna eftir því sem batinn er hafinn en ella mundi vera, að við náum fjárfestingarstiginu upp og hefur það þó verið að taka vel við sér. Ég held að stjórnarandstaðan, sem hefur á köflum málað hlutina hér ansi dökkum litum, ætti aðeins að fara að spyrja sjálfa sig: Hvernig er nú svartagallsrausið til dæmis frá því í fyrra þegar það er borið saman við tölur og gögn sem við höfum núna í höndunum? Lengi framan af ári 2011 neitaði stjórnarandstaðan því að nokkur hagvöxtur væri hafinn, það var hlegið að mér þegar ég spáði því að umsnúningurinn væri að verða á þriðja ársfjórðungi 2010 sem er nákvæmlega það sem núna staðfestist í hagtölunum. Þá sneri hagkerfið við og landið fór að rísa.

Þegar hagvöxturinn var orðinn óumdeilanlegur og menn gátu ekki lengur neitað því að bati var kominn, hvað sögðu menn þá í þessum sal? Já, en það er ekki réttur hagvöxtur, þetta er bóla drifin af einkaneyslu. En hvað sýna greiningarnar núna? (Gripið fram í.) Ef við förum í það hverjir voru undirliðir landsframleiðslunnar frá öðrum ársfjórðungi 2010 til og með fjórða ársfjórðungs 2011 er það útflutningur og atvinnuvegafjárfesting sem drífur hagvöxtinn. Og í þriðja sæti kemur einkaneyslan þannig að sá málflutningur sem hér var uppi hafður af ýmsum verður svolítið hjákátlegur þegar staðreyndirnar birtast smátt og smátt í gegnum opinber gögn.

Ég tel að þessi efnahagsáætlun sé skynsamleg í efnahagslegu tilliti, hún er ábyrg og ég legg áherslu á að áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum er í forgangi og gengur framar þessum áformum. Með öðrum orðum, á hverjum tíma verður tekið frá fyrir því sem tryggir framvindu ríkisfjármálaáætlunarinnar þannig að við náum settu marki í þeim efnum. Og hraði þessarar áætlunar er þar af leiðandi háður þeim fyrirvörum að fyrst er tekið frá fyrir ríkisfjármálaáætluninni og síðan er það framvinda tekjuþróunarinnar sem að öðru leyti ræður. Um þetta er rætt og um þetta er deilt víða báðum megin Atlantsála, að hvaða marki eigi að takast á við efnahagserfiðleikana og erfiða stöðu ríkissjóða með aðhaldsaðgerðum og niðurskurði og að hvaða marki eigi að reyna að örva hagvöxt og ná inn tekjum þannig. Við höfum almennt farið blandaðar leiðir í okkar nálgun, bæði í ríkisfjármálum og efnahagsmálum, og erum að gera það hér. Við munum áfram beita aðhaldi og aga í ríkisfjármálum en við ætlum líka að beita örvandi aðgerðum af þessu tagi með viðbótartekjum, óreglulegum einskiptis- eða sveiflukenndum viðbótartekjum sem við fáum á næstu missirum gegnum veiðileyfagjöld og arðgreiðslur eða eignasölu úr bönkum. Og vel að merkja, til að hryggja þá formann Sjálfstæðisflokksins, það er engin stefnubreyting fólgin í eignarhaldi á bönkunum, hún hefur þegar komið út og er boðuð og liggur fyrir. Minni hlutarnir í bönkunum af hálfu ríkisins eru falir en ríkið mun áfram eiga kjölfestumeirihlutaeignarhlut í Landsbankanum næstu árin. Og það er meira en nóg svigrúm fyrir þær sölutekjur sem þarna er gert ráð fyrir til að þetta gangi eftir.

Ráðstöfun tekna af þessu tagi, eignasölu- eða tímabundnar arðgreiðslutekjur eða mjög sveiflukenndar tekjur eins og búast má við þegar andlagið er viðbótarauðlindarenta af sjávarútvegi í góðum árum, er skynsamlegt að leggja í innviðafjárfestingar af þessu tagi en ekki beint í rekstur. Ríkið mun ekki skuldsetja sig um eina krónu í viðbót vegna þessarar fjárfestingaráætlunar, það er útgangspunktur og ríkið mun taka frá fyrir áætlun sinni í ríkisfjármálum.

Að lokum, frú forseti, um áherslurnar sem hér birtast þá vil ég lýsa sérstakri ánægju með þær. Þær endurspegla mjög vel þær áherslur um fjölbreytni, um sjálfbæra atvinnuuppbyggingu, um eflingu innviða, rannsókna og þróunar, um græna hagkerfið, um skapandi greinar og um innviðafjárfestingar eins og samgöngur sem þessi ríkisstjórn byggir grundvallaratvinnuframfarasókn sína á.