140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:16]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. 20 milljarða halli á ríkissjóði er 20 þúsund milljónir í mínus. Það er nokkuð mikið á þessu ári en borið saman við árið 2009 þegar hallinn var 215 milljarðar þá megum við vel við una. Mér finnst 6,5% atvinnuleysi vera mikið atvinnuleysi en það er helmingi minna en þegar verst lét og var milli 11 og 12%, og það er helmingi minna en gerist að meðaltali í fyrirheitna landinu Evrópusambandinu þar sem atvinnuleysi er núna að meðaltali 11%.

Menn hafa spurt hvernig Íslendingar hafi farið að við að ná þeim árangri sem við höfum gert á undanförnum árum. Ég vil þakka það samstöðu þjóðarinnar sem hefur skilið hvað þyrfti að gera á þeim missirum og árum sem við lifum nú til að við gætum rétt okkur við. Það er meiri skilningur í íslensku samfélagi en gerist víðast hvar annars staðar þegar menn og þjóðir lenda í miklum hremmingum eins og við höfum gert. Tekjuhrapið hjá ríki og sveitarfélögum hefur að sjálfsögðu látið finna fyrir sér.

Lítum aðeins á þá málaflokka sem heyra undir það ráðuneyti sem ég stýri, innanríkisráðuneytið, og tökum samgöngumálin. Fyrir fimm, sex árum vörðum við úr ríkissjóði rúmum 30 milljörðum kr. á ári til samgöngumála, þar af um 20 milljörðum í framkvæmdir. Núna er þessi upphæð rétt rúmir 15 milljarðar og nýframkvæmdir eru um 5,5 milljarðar kr. Að sjálfsögðu hefur þetta valdið óánægju og að sjálfsögðu hefur þetta komið við atvinnulífið, verktakana sem sinna samgöngubótum. Núna þegar við kynnum þær fréttir að við ætlum að veita umtalsvert meira fjármagn í samgöngubætur en við höfum gert þá gleðjast menn að sjálfsögðu yfir því, að minnsta kosti utan veggja þessa húss. Það gera menn í landinu almennt þar sem menn kunna að beita heilbrigðri skynsemi. Það sem við erum að gera núna er að flýta vegaframkvæmdum og samgöngubótum þar sem sérstaklega hefur verið kallað eftir slíku.

Á síðustu tveimur vikum hef ég tekið við undirskriftasöfnunum í tveimur hlutum landsins, á Vestfjörðum og á Austfjörðum þar sem óskað var eftir því að við flýttum gerð Norðfjarðarganga og Dýrafjarðarganga og vegaumbótum á Dynjandisheiði. Þúsundir skrifuðu undir þessar áskoranir. Mér finnst það vera mikið gleðiefni ef við getum nú orðið við þeim bónum að flýta þessum framkvæmdum sem eru þjóðhagslega mikilvægar og koma þessum byggðarlögum vel hvernig sem á málin er litið.

Við erum líka að ráðast í framkvæmdir sem eru afar mikilvægar á suðvesturhorninu. Ég nefni smíði nýs fangelsis en nú er að ljúka samkeppni arkitekta um það verkefni og verður niðurstaðan kynnt í byrjun næsta mánaðar. Það er hluti af þeim framkvæmdum sem verið er að kynna. Samgöngubætur á Suðurlandi, ný Vestmannaeyjaferja og umbætur í Landeyjahöfn skipta líka miklu þannig að hvernig sem á málin er litið er núna verið að boða, ekki bara samgöngubætur heldur umbætur í efnahagslífi okkar og það á að vera okkur öllum að sjálfsögðu gleðiefni.