140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég geri hér grein fyrir nefndaráliti á þskj. 1243 um tillögu til þingsályktunar um samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland innan ramma stuðningsaðgerða sjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB, svokallaður IPA-sjóður.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að samþykkja rammasamning milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð Evrópusambandsins við Ísland innan ramma stuðningsaðgerða sjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki, en samningurinn var undirritaður 8. júlí sl. Samningurinn er gerður í samræmi við regluverk ESB og fjallar í stórum dráttum um viðtöku IPA-styrkja og eftirlit með ráðstöfunum þeirra, en sams konar samningur hefur verið gerður við öll ríki sem sótt hafa um aðild að ESB eftir 1994, auk Tyrkja.

Í athugasemdum með tillögunni kemur fram að samningurinn geri ráð fyrir að öll aðstoð renni óskipt til þeirra verkefna sem þeim er ætlað að styðja. Enginn hluti IPA-aðstoðar rennur því til að greiða skatta eða önnur opinber gjöld. Fjármálaráðherra hefur í þessu skyni lagt fram frumvarp um breytingar á skattalögum, sem er einnig hér til meðferðar á Alþingi. Það er í samræmi við þá venju að alþjóðastofnanir gera samninga við yfirvöld þeirra ríkja (gistiríkja) sem þær eru staðsettar í um friðhelgisréttindi, t.d. um friðhelgi skrifstofuhúsnæðis, útsendra starfsmanna og undanþágur frá tollum, sköttum og öðrum opinberum gjöldum. Þetta er grundvallarregla í milliríkjasamskiptum sem byggist á gagnkvæmni. Hún gerir starfsemi sendiskrifstofa, alþjóðastofnana og ýmiss konar alþjóðlega aðstoð, þar með talið þróunaraðstoð, greiðari og ódýrari.

Samningurinn byggist á sömu grundvallarsjónarmiðum. Þannig skulu einstaklingar sem ekki eru búsettir hér á landi en samið er við um að veita þjónustu eða vinnu sem fjármögnuð er af IPA-aðstoð ekki greiða tekjuskatt hér á landi af starfi sem unnið er á grundvelli slíks samnings. Að meginstefnu er því hér um að ræða sams konar réttindi og skyldur og almennt gilda gagnvart tæknilegu starfsliði sendiráða og alþjóðlegra stofnana sem hér starfa. Hið sama gegnir einnig um önnur opinber gjöld.

Þá eru í samningnum ýmsar heimildir til að hafa eftirlit með því hvernig styrkjunum er varið. Þar er um að ræða sams konar eftirlit og endurskoðun á ráðstöfun fjármuna úr áætlunum ESB sem Ísland hefur veitt viðtöku á grundvelli EES-samningsins síðastliðin 18 ár.

Á fundi nefndarinnar kom fram að fjármagnsaðstoð við umsóknarríki var komið á til hjálpar fátækari ríkjum í Austur-Evrópu. Ísland þarf því ekki á aðstoð að halda í neinum mæli í líkingu við þau ríki og fær einungis styrki úr einum af fimm flokkum IPA-styrkja. Vegna þess hve aðstoð við Ísland verður takmörkuð mun framkvæmdastjórn ESB annast stýringu hennar til einföldunar og hagræðingar. Af því leiðir að engar nýjar stofnanir þarf að byggja upp innan stjórnkerfisins til utanumhalds um styrkina hérlendis líkt og gert hefur verið í öðrum umsóknarríkjum.

Þeir sem undir þetta nefndarálit rita telja ljóst að skýran ramma þurfi um þá fjármuni sem koma í gegnum styrkjakerfið, óháð því hversu mörg eða umfangsmikil þau verkefni eru sem fá framgang innan þessa ramma. Þau sjónarmið eru vissulega uppi að ekki eigi að taka við styrkjum í gegnum IPA en þó er ljóst að af einhverjum verkefnum verður og í fjárlögum 2012 er gert ráð fyrir á tekjuhlið 596 millj. kr. vegna IPA-styrkja. Ég vek athygli þingheims á því að í nefndarálitinu á bls. 2 er misrituð tala, þar stendur 400 millj. kr. en á að vera 596 millj. kr. Það er þess vegna brýnt að afgreiða þessa þingsályktunartillögu en þess má geta að frumvarp fjármálaráðherra, eins og ég hef áður getið um, um nauðsynlegar breytingar á skattalögum hefur verið afgreitt úr efnahags- og viðskiptanefnd og er þegar komið til 2. umr.

Þeir sem standa að þessu nefndaráliti eru Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Helgi Hjörvar, Lúðvík Geirsson og Róbert Marshall.

Bjarni Benediktsson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.