140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir svörin. Ég veit auðvitað ekki frekar en hv. þingmaður um þetta og reikna með að allt sé hér lögum samkvæmt. En það sem vekur athygli í þessu sambandi eru ákveðin einkennilegheit sem tengjast tímasetningum. Rammasamningurinn var undirritaður síðasta sumar en við erum nú í maí árið eftir að ræða afgreiðslu hans í þinginu. Sama á við um skattalagafrumvarpið sem tengist málinu. Mér finnst þetta sérkennilegt í ljósi þess að síðasta sumar var gengið frá samningum við Evrópusambandið um þetta og í fjárlögum sem unnin voru síðastliðið haust var gert ráð fyrir styrkjunum. Ég velti fyrir mér hvað veldur því að þessi mál voru ekki kláruð til dæmis áður en fjárlagaafgreiðsla átti sér stað. Voru fyrir því einhverjar pólitískar ástæður í ríkisstjórninni eða hv. utanríkismálanefnd eða einhvers staðar annars staðar?