140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:05]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þeim IPA-styrkjum sem hingað koma hefur verið skipt í fernt:

Í fyrsta lagi styrki er varða framkvæmd EES og Schengen, þ.e. afmörkuð verkefni á ýmsum sviðum sem tengjast innleiðingu skuldbindinga á grundvelli EES- og Schengen-aðildar okkar.

Í öðru lagi til undirbúnings samningaviðræðnanna sjálfra.

Í þriðja lagi ýmis innleiðingarverkefni sem væru þá þess eðlis að ráðist yrði í þau að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, að því gefnu að aðildin yrði samþykkt.

Í fjórða lagi atvinnuþróunarverkefni, þ.e. verkefni sem geta stutt við atvinnuuppbyggingu á tilteknum svæðum eða stutt sérstaklega við íslenskan vinnumarkað. Verkefnið sem hv. þingmaður nefndi fellur þar undir.

Í fimmta lagi uppbyggingu og þróun rafrænnar stjórnsýslu. Það eru verkefni sem tengjast áframhaldandi þróun upplýsingasamfélagsins.

Þetta eru þeir flokkar sem við höfum skilgreint að því er varðar stuðning frá IPA. Ég tel að væntanlega muni það verkefni sem hv. þingmaður nefndi falla undir einn þeirra. (Forseti hringir.) Ég hef víst ekki lengri tíma.