140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:38]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hryggir mig að hv. þm. Mörður Árnason hefur greinilega ekki hlustað af athygli á ræðu mína áðan, það kemur mér satt að segja verulega á óvart líka. Ég tók það sérstaklega fram í ræðu minni og í minnihlutaáliti því sem ég var að mæla fyrir segir meðal annars að verkefnin sem hér um ræðir séu velflest ef ekki öll mjög gagnmerk og gagnleg og afstaða mín til þeirra hefur ekkert með eðli þeirra að gera. Ég rakti það sérstaklega og nefndi einmitt þau verkefni sem hv. þm. Mörður Árnason gerði sérstaklega að umtalsefni.

Ég sagði frá því að ég hefði fengið símtöl úr mínu ágæta kjördæmi, bæði af Suðurlandi og af Suðurnesjum, þar sem menn hvetja til þess að þetta verði samþykkt vegna þess, eins og þingmaðurinn bendir réttilega á, að þetta eru mjög mikilvæg verkefni í atvinnutilliti á stöðum þar sem atvinnulíf er einhæft. Ég get ekki tekið undir það með hv. þingmanni að þetta sé ný áhersla í grænu atvinnustarfseminni sem frasapólitíkin í Samfylkingunni gengur út á. Þetta eru fín uppbyggileg atvinnuverkefni sem við hefðum eflaust getað náð pólitískri samstöðu um á þinginu ef menn hefðu komið fram með þau verkefni og við þá getað tekist á um þau við úthlutun fjármuna. Það sem ég er fyrst og síðast og eingöngu að gera athugasemdir við varðandi þessi verkefni er fjármögnunin frá IPA-styrkjum Evrópusambandsins. Það er fjármögnunin sem mér þykir óeðlileg, ég vona að það sé skýrt og að hv. þingmaður hafi verið að hlusta núna.