140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Aftur hryggir hv. þingmaður mig með því að opinbera það að hann hafi ekki hlustað nægilega vel á ræðu mína vegna þess að ég fjallaði einmitt líka um þetta atriði. Ég tók það sérstaklega fram að ekki væri við forstöðumenn þessara stofnana, fyrirtækja eða sjóða að sakast sem sækja um þessa styrki í góðri trú vegna þess að þeir standa til boða að sjálfsögðu.

Ég greindi einmitt frá því að á fund nefndarinnar komu ýmsir gestir, eins og hv. þingmaður veit, sem fóru yfir það, fóru yfir mikilvægi þessara verkefna. Ég geri engar athugasemdir við það að viðkomandi aðilar sæki sér styrki þar sem styrki er að fá þegar kreppir að og þessar stofnanir eru margar hverjar fjársveltar. Ég geri athugasemd við það fyrirkomulag að Evrópusambandið sé þarna (Forseti hringir.) að beita fjármunum að því er mér þykir með óeðlilegum hætti til að aðlaga Ísland að Evrópusambandinu og til að breyta afstöðu (Forseti hringir.) íslensku þjóðarinnar til aðildar.