140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það, mér finnst þessi vinnubrögð vera verulega ámælisverð. Ég verð að segja alveg eins og er að þetta er verklag og vinnulag sem ég hélt að við ætluðum að hverfa frá, þ.e. það hefði verið miklu eðlilegra að umræða um slíkt hefði farið fram í þinginu og í nefndum um að heimila ríkisstjórninni að ganga til slíks samkomulags áður en það lægi fyrir og lægi fyrir sem leyniplagg í nokkra mánuði og fjárlög kláruð og annað í þeim dúr.

Það er síðan séruppákoma — og mig langar að nota seinna andsvar mitt í að biðja þingmanninn hreinlega að útskýra þá atburðarás fyrir okkur sem ekki sitjum í utanríkismálanefnd — þegar þetta mál var tekið út fyrir skömmu. Hv. þingmaður fór aðeins lítillega yfir það í ræðu sinni en aðeins meira í andsvari við hv. þm. Árna Þór Sigurðsson hvernig það má vera að slíkt mál, sem við erum sammála um að hefði átt að koma upp fyrst og í upphafi (Forseti hringir.) síðasta þings, sé tekið út án þess að umræða sé kláruð á upphafsmínútum (Forseti hringir.) nefndarfundar þar sem fáir eru mættir.