140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[20:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ef það er rétt hjá þingmanninum, og ég ætla ekki að mótmæla því, að menn hafi farið fram með ákveðnum blekkingum allan tímann, alveg frá því að þingsályktunartillaga um aðildarviðræður var samþykkt og síðan stigið hvert skrefið á fætur öðru, má halda því fram að hér sé þetta mál í búningnum úlfur í sauðargæru. Ekki er það að minnsta kosti neitt lamb að leika sér við. Samningaviðræður við 27 þjóðríki og 500 milljóna markað miðað við Ísland er nokkuð ójafn leikur enda er að mínu viti klárlega um aðlögun að ræða. Ég hef ekki skilið af hverju menn hafa ekki viljað viðurkenna hlutina eins og þeir eru og þá er miklu auðveldara að tala fyrir þeim í staðinn fyrir að reyna alltaf að tala svolítið fram hjá.

Þetta fór í gegnum fjárlagafrumvarpið og af því tilefni vil ég spyrja hv. þingmann hvernig þeir þingmenn sem samþykktu fjárlagafrumvarpið og eru í vafa eða hafa hingað til haldið því fram að þeir séu í samningaviðræðum og séu ekki á leiðinni í Evrópusambandið munu geta greitt atkvæði gegn þessum IPA-styrkjum eftir að hafa samþykkt fjárlagafrumvarpið með IPA-styrkjunum inni. Heldur blekkingaleikurinn stöðugt áfram, frú forseti?