140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[20:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég rakti í ræðu minni felur þessi röð á hlutunum og afgreiðslu mála í þinginu það í sér að það er verið að stilla þingmönnum á margan hátt upp í svolítið óþægilega stöðu. Eins og hv. þingmaður nefnir voru fjárlög samþykkt fyrir jólin þar sem gert var ráð fyrir IPA-styrkjunum bæði á tekjuhlið og gjaldahlið. Eins og rakið hefur verið er búið að vekja væntingar hér og þar um að hægt sé að ráðast í hin og þessi verkefni, mörg afar jákvæð, á grundvelli þess að IPA-styrkir fáist. Þess vegna eru þingmenn settir í erfiðari stöðu en ella og erfiðari aðstöðu en ef farið hefði verið í hlutina einhvern veginn í réttri röð með því að byrja á að fá heimild þingsins til að staðfesta IPA-samningana eða rammasamninginn við Evrópusambandið og fara síðan í breytingar á fjárlögum og öðrum lögum í kjölfarið á þeirri samþykkt. Það hefði verið miklu eðlilegri röð á hlutunum. En ég vona (Forseti hringir.) að þingmenn, jafnvel þó að þeir hafi samþykkt fjárlagafrumvarpið, muni greiða atkvæði í þessu máli (Forseti hringir.) samkvæmt sinni bestu samvisku.