140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[20:04]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér þykir afar jákvæð þróun að hv. þingmenn eru farnir að lesa upp úr blaðinu Sveitinni sem er prýðilegt upplýsingablað um Evrópusambandið og hvernig það kemur við byggðir og landbúnað í landinu. Það gerði hv. þingmaður sem hér flutti ræðu áðan og mig langar að spyrja hann hvort hann hafi ekki líka lesið opnu blaðsins. Þar kemur nefnilega í ljós að við höfum ánetjast mjög hættulega styrkjakerfi Evrópusambandsins nú þegar og menn eru greinilega farnir að ná mikilli æfingu í að herja þaðan út styrki sjálfum sér til spillingar og landinu til áþjánar.

Þar er sagt að alls nemi styrkir sem Evrópusambandið hefur veitt hér á landi úr ýmsum dagskrám sem það hefur 157 milljónir evra en að í þessa sömu sjóði hafi Íslendingar lagt í gegnum aðild sína að Evrópska efnahagssvæðinu 87 milljónir evra. Mér sýnist að ánetjunin nemi 1,2 milljörðum kr., forseti. Til að sýna hv. þingmanni að þetta er engin della sem ég er hérna með eru þessar tölur og þessi síða unnin upp úr svari sem leiðtogi hv. þingmanns og annarra stjórnarandstæðinga úr Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki í Evrópusambandsmálum fékk við sérstakri fyrirspurn á þinginu, nefnilega hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. Annar eins maður og Vigdís Hauksdóttir fer ekki með neina lygi, það vitum við hv. þingmaður báðir.

Mig langar að spyrja hann: Er þetta ekki hættuleg ánetjun eftir 18 ára veru á Evrópska efnahagssvæðinu og verðum við ekki að fara að gera eitthvað í þessu? Vill ekki hv. þingmaður bera upp tillögu um og reyna að afla henni fylgis að við segjum okkur (Forseti hringir.) úr þessu ánetjunarsambandi sem við erum þegar komin í við Evrópusambandið?