140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[20:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki ætla ég að rengja þær tölur sem hv. þingmaður vísar til og komu fram í svari ráðherra við ágætri fyrirspurn frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Ég hef enga ástæðu til að rengja þessar tölur.

Það sem hv. þingmaður verður hins vegar að gera greinarmun á er annars vegar þátttaka okkar í áætlunum og styrkjakerfi sem tengist Evrópska efnahagssvæðinu og aðild okkar að því frá 1994, með öðrum orðum styrkjum sem fela ekki í sér nein fyrirheit og hafa engin tengsl við aðild að Evrópusambandinu, það er alveg ljóst. Íslenskir aðilar áttu rétt á þeim styrkjum alveg óháð allri aðildarumsókn en það er stóri munurinn. IPA-styrkirnir eru aðeins veittir í tengslum við aðildarumsókn. Þess vegna er um grundvallarmun að ræða.

Varðandi hins vegar aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu vil ég segja með almennum orðum að því fylgja bæði kostir og gallar. Ég tel að kostirnir yfirvinni gallana og hef þess vegna stutt aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og tel að við eigum að vera áfram aðilar að því en lengra vil ég ekki ganga og það er grundvallarmunurinn á minni afstöðu og afstöðu hv. þingmanns. Ég tel að sú tenging sem við höfum við Evrópusambandið með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu sé nægileg, jafnvel of mikil að sumu leyti, en allt í lagi, það er tenging sem ég hef verið tilbúinn að fallast á og samþykkja. Lengra vil ég samt ekki ganga.

Hv. þingmaður er annarrar skoðunar og hefur fullan rétt til þess, en samanburðurinn milli þeirra styrkja sem tengjast aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og styrkja sem tengjast aðlögun að Evrópusambandinu er tvennt ólíkt. (Forseti hringir.) Samanburðurinn er ekki réttmætur.