140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[20:09]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Menn verða að vera samkvæmir sjálfum sér í þessu. Við erum þegar orðin Evrópusambandsþjóð að þremur fjórðu eða fjórum fimmtu eða hvaða tölur sem menn velja sér í því. Það hafa verið deilur um það, en það er alveg klárt að samkvæmt gerðum er það af þessari stærð. Þetta er sama röksemdafærsla og hv. þingmaður og hv. þingmenn Gunnar Bragi Sveinsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir hafa notað, þau hafa talað um ánetjun, óeðlilegar styrkveitingar, um perlur og eldvatn eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson gerði í andsvari áðan hafi ég heyrt rétt, og þetta er auðvitað í sama dúr.

Svo ég endurtaki töluna munar 70 milljónum evra á framlagi og styrkjum til Íslands. Það er alveg augljóst samkvæmt hugsunarhætti og aðferð hv. þingmanna Gunnars Braga Sveinssonar, Birgis Ármannssonar og Ragnheiðar Elínar Árnadóttur að hér hlýtur að vera um perlur og eldvatn að ræða til Náttúrustofu Vestfjarða, (Forseti hringir.) Háskólans á Hólum, Iðunnar – fræðsluseturs, leikskóladeildarinnar í Lundi í Öxarfirði o.s.frv. (Forseti hringir.) eins og menn geta séð í opnu þess ágæta blaðs sem menn hafa gert hér að umræðuefni.