140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[20:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 11. þingmaður Reykv. n. hlýtur að svara því í ræðu sinni hér á eftir hvers vegna munur er á IPA-styrkjunum og þeim styrkjum eða fjárveitingum sem tengjast samningum sem við eigum aðild að á grundvelli Evrópska efnahagssvæðisins. Það er grundvallarmunur á því. Þarna er um að ræða þátttöku okkar í áætlunum sem Evrópusambandið stendur að sönnu fyrir en eru áætlanir sem við eigum aðild að á grundvelli aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu sem við höfum átt aðild að síðan 1994 og tengjast ekki með neinum hætti aðildarumsókn, eru ekki hugsaðar í neinum tengslum við aðildarumsókn. (MÁ: Ertu viss?)

Það er opinbert og yfirlýst að IPA-styrkirnir svokölluðu tengjast undirbúningi ríkja að aðild að Evrópusambandinu. Á þessu er þar með grundvallarmunur.