140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[20:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á því að segja að ég hefði kosið að við værum enn að ræða það mál sem við vorum byrjuð að ræða, þ.e. lagafrumvarpið um IPA-styrkina. Ég hefði talið rétt að halda þeirri umræðu áfram. Ég hef ekki enn þá fengið neina skýringu á því og hef ekki grænan grun um, eins og sagt er, hvers vegna allt í einu var farið að breyta þessu og gera hlé á umræðu sem var hafin og hefja umræðu um þingsályktunartillöguna. Ég sé að minnsta kosti lítil rök að baki því og hef ekki fengið neinar skýringar á þessu.

Við ræðum um IPA-styrkina sem eru augljóslega mjög mikilvægur þáttur í aðlögun Íslands að Evrópusambandinu og regluverki þess. Við hljótum því að tala um IPA-styrkina, tilganginn með þeim og bera þá saman við aðra styrki, eins og hér var ágætlega gert og um að gera að halda því áfram, í sömu mund og við veltum fyrir okkur Evrópusambandinu og stöðu þess. Við hljótum líka að reyna að átta okkur á því hvert hlutverk okkar verður innan Evrópusambandsins þegar þangað er komið, ef af því verður, sem ég vona að sjálfsögðu að verði ekki.

Ég vil byrja á því að segja, frú forseti, að ég hygg að langflestir þingmenn sem hafa talað á móti þessu aðlögunarferli og eru á móti því að gefa enn frekar eftir, við skulum bara nota það orðalag, gefa í raun eftir fullveldi Íslands, gefa eftir þann rétt sem við höfum í dag til að ráðskast með ákveðin mál, séu fylgjandi því að auka erlent samstarf, auka samstarf við Evrópusambandið þar sem það á við, við önnur ríki og önnur landsvæði þegar augljóst er að saman fari hagir beggja aðila.

Eins og allir vita hafa Íslendingar verið býsna lengi í samstarfi við Evrópusambandið í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þann samning held ég að farsælla hefði verið fyrir bæði Evrópusambandið og EES-ríkin að reyna að þróa áfram og beita sér jafnvel fyrir því að fjölga ríkjum innan þess samnings. Að mínu viti er nokkuð ljóst að Evrópusambandið mun hægja á stækkunarferli sínu vegna þess vandræðagangs sem er þar í dag og mikillar gagnrýni innan Evrópusambandsins sjálfs á ýmsa hluti þar innan búðar. Þá hljóta þeir er þar stjórna að horfa til þess að fjölga jafnvel þeim ríkjum sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af því að það hefði skaðvænleg áhrif á samninginn um Evrópska efnahagssvæðið ef Íslendingar drægju sig út úr því viðræðuferli við Evrópusambandið sem nú er í gangi.

Ímyndin skiptir máli í mörgu og Evrópusambandið leggur mjög mikið upp úr því að hafa ímynd sína í lagi og hafa hana rétta. Til þess beitir sambandið því vopni sem það er kannski hvað best í að beita, sem eru fjármunir. Það hefur komið fram hjá erlendum fréttamiðli, minnir mig, að Evrópusambandið eyði meiri fjármunum í að kynna sig og sína ímynd en þekktasta vörumerki heims, Coca Cola. Það eru því engir smápeningar þar á ferð. Í ræðu í dag var minnst á það að Evrópusambandið hugar mjög að því að ungdómurinn sé vel „upplýstur“ um Evrópusambandið, m.a. með því að halda úti heimasíðu sem hér var nefnd, um Captain Euro, sem er einhvers konar ofurhetja sem á að fara um heiminn og bjarga öllu vegna þess að Evrópusambandið er svo gott. Svo ég upplýsi hæstv. forseta um það er heimasíðan captaineuro.com. Það er mjög merkilegt að fara inn á þessa síðu, frú forseti. Ég hvet hv. þingmenn til að skoða hvað Evrópusambandið er að halda að börnunum. Það er athyglisvert.

Annað sem vert er að minnast á er að Evrópusambandið eyðir milljörðum í námsbækur sem eru rétt skrifaðar, í að fjármagna sjónvarpsþætti sem draga upp jákvæða mynd af Evrópusambandinu, styrkja bíómyndir sem draga upp jákvæða mynd af Evrópusambandinu, heimildamyndir, dagblöð og tímarit. Það kann að vera að mörgum hugnist mjög að ganga inn í svona heilaþvottarapparat en á sama tíma berjast margir þingmenn hér mjög hart gegn því að fyrirtæki styrki íslenska stjórnmálaflokka. Ég hef stundum velt fyrir mér hvernig þetta tvennt fer saman, ef um er að ræða sömu aðila.

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að sýna hv. þingmönnum forsíðuna af captaineuro.com. Það er eflaust mjög spennandi fyrir krakka að fara inn á þessa síðu. Sem betur fer er hún ekki á íslensku, en hver veit.

Frú forseti. Í þeim bæklingi sem ég hef áður nefnt og fleiri þingmenn um stækkun Evrópusambandsins er fjallað um hvernig stækkunin gengur fyrir sig, um IPA-styrkina og allt ferlið. Það er alveg ljóst þegar maður kynnir sér þennan bækling að hlutverk þessa stuðningsapparats sem IPA-kerfið er og styrkjanna er að stuðla að betri aðlögun ríkja að Evrópusambandinu, að innleiðing laga og reglna sé með réttum hætti og þær stofnanir sem þurfa að vera til staðar og þurfa að fúnkera rétt við inngöngu, séu til. Ég fæ hvergi séð í bæklingnum, þó ég ætli ekki að fullyrða að þar standi allt um IPA-styrkina, neitt sem rökstyður að IPA-fjármunir, hvort sem þeir eru af þessum íslenska kvóta eða komi annars staðar frá, séu notaðir í fyrirbæri eins og t.d. Evrópustofu, sem er einhvers konar áróðurstæki hér á Íslandi, þess þá heldur að þeir séu notaðir í ýmis verkefni, sem sjálfsagt eru mjög góð og þörf eins og hefur verið nefnt í dag varðandi verkefni á Suðurlandi. Ég tek það fram að það hefur ekkert með að gera hvernig verkefnið er og hvort það eigi rétt á sér eða ekki.

Annað sem einhver misskilningur ríkir um þegar rætt er um aðlögunina að Evrópusambandinu er að það er eins og margir haldi að við inngöngu gerist eitthvert efnahagslegt kraftaverk á Íslandi. Það verður nú aldeilis ekki. Við erum í þeirri stöðu eins og hefur verið bent á að t.d. vaxtakjör á Íslandi yrðu ekkert endilega þau sömu og í Þýskalandi, þau gætu orðið svipuð og í einhverju allt öðru landi því að þýska evran er ekki sama fyrirbæri og spænska evran, svo dæmi sé tekið. Ég held að það sé mjög mikilvægt, ef nota á IPA-fjármunina í að upplýsa um sannleikann á einhvern hátt eins og hjá Evrópustofu, að mjög vel sé farið yfir hvaða evru Íslendingar fái ef þeir ganga í Evrópusambandið. Hvað er það sem við fáum nákvæmlega? Það sem við vitum er að við fáum það Evrópusamband sem er við lýði í dag, þ.e. stóru myndina.

Við höfum margir þingmenn náð að hitta suma þingmenn Evrópusambandsins og þeim ber flestum saman um að það sé kannski eðli Evrópusambandsins að breytast. Það Evrópusamband sem til dæmis Tékkar gengu í — ég held að það hafi verið Tékkar, ég ætla ekki að fullyrða það, en við okkur ræddi þingmaður, súrkálsbóndi ef ég man rétt, sem sagði að það Evrópusamband sem hann gekk inn í væri ekki það Evrópusamband sem hann er í í dag. Það er ekkert mjög langt síðan Tékkar gengu þarna inn, þróunin er svo hröð og mikil og einmitt núna í dag. Þar af leiðandi held ég að það sé óskynsamlegt fyrir Íslendinga að láta eins og ekkert sé, halda áfram förinni eins og ekkert sé sjálfsagðara en að halda áfram því ferli sem farið var af stað í 2009, inn í það Evrópusamband sem menn sáu þá í hillingum.

Ég held til dæmis að þau efnahagsvandræði ein og sér sem dunið hafa á Evrópuríkjunum ættu að nægja til þess að menn vildu setjast niður og velta fyrir sér þróuninni og hver framtíðin verður. Það eru jafnvel spádómar uppi í dag um að evrusamstarfið kunni að líða undir lok, í það minnsta að einhver ríki dragi sig út úr evrusamstarfinu. Sú hugmynd hefur líka komið upp frá einhverjum ráðherrum í Evrópusambandinu að búa til einhvers konar sérevru, t.d. fyrir Grikki. Þeir hefðu þá sérstaka útgáfu af evrunni sem mundi nýtast þeim betur en sú evra sem almennt er notuð.

Annað sem ég vil nefna enn og aftur í þessari umræðu er að Evrópusambandið hefur náttúrlega þróast úr því að vera samband sex landa í 27 á þeim tíma sem það hefur verið til. Við skulum ekki gera lítið úr því að Evrópusambandið hefur stuðlað að friði innan þeirra landa sem það nær yfir, en það hefur svo sannarlega ekki staðið við öll þau fögru loforð sem koma fram í grundvallartexta þess eða í skilgreiningunni á þessu batteríi, eins og að stuðla að stöðugleika, velmegun, lýðræði o.s.frv. Ég hugsa að mannréttindi hafi batnað mjög mikið í þeim löndum þar sem mannréttindi voru vandamál áður en þau gengu í Evrópusambandið, ég hugsa að Evrópusambandið hafi stuðlað að bættum mannréttindum innan sambandsríkjanna og jafnvel víðar, það hafi beitt sér úti um heim í slíkum málum. Það er að sjálfsögðu vel og við Íslendingar eigum að taka þátt í slíku samstarfi þótt að við göngum ekki inn í Evrópusambandið, og að stuðla að frelsi manna til að tjá hugsanir sínar og skoðanir. Við eigum samleið með mörgum ríkjum þótt við viljum ekki endilega gangast þeim á hönd eða aðlagast þeim á einhvern hátt. Ég nefni þetta því að Evrópusambandið setur sér ákveðnar forsendur eða grundvallarhugsun og verkefni sem það telur sig hafa skapað fyrir þegna sína.

Annað sem við sjáum í úttektum — auðvitað er það ekki allt saman heilagur sannleikur, ég hef þann fyrirvara á — er að margar stofnanir telja að innan Evrópusambandsins sé lýðræðishalli, ekki sé gætt lýðræðis milli ríkjanna og milli þegnanna. Ég velti fyrir mér þegar ég var að horfa á fréttir og sá kanslara Þýskalands og forseta Frakklands hittast á fundum og ráðgast um framtíð Evrópusambandsins: Hvar er forsætisráðherra Möltu eða forsætisráðherra Írlands til dæmis þegar verið er að ráðgast um svona hluti? Þessi lönd voru á kantinum og biðu bara eftir skipunum að ofan.

Við sjáum líka að Evrópusambandið er að þróast í þá átt að vera meira miðstýrt en nokkru sinni fyrr. Það vill fá völd til þess að hafa áhrif og segja skoðun sína á fjárlögum einstakra ríkja, tryggja að fjárlögin uppfylli þau viðmið sem Evrópusambandið hefur sett sér. Ég leyfi mér að segja að mér þykja þetta mjög frekleg inngrip í sjálfstjórn og í raun fullveldi ríkjanna ef það gengur eftir að einstök ríki geti ekki haft fjárlög sín eftir eigin höfði, hvert ríki á vitanlega að hafa frelsi til þess og Evrópusambandið á ekki að þurfa að gefa því stimpil. Ýmsir svona hlutir trufla mann í þessari umræðu.

Það er líka hægt að velta fyrir sér hvernig málið um IPA-styrkina bar að, en ég ætla að geyma mér það. Hins vegar er athyglisvert að lesa þær úttektir og skýrslur sem við fáum frá Evrópusambandinu þar sem fylgst er með þróuninni á Íslandi og framvindu mála. Í sumum þessara skýrslna koma fram áhugaverðir punktar. Í stækkunarskýrslu eða framvinduskýrslu frá því í mars á þessu ári er til dæmis fjallað um fjölmiðla og Ríkisútvarpið. Hér bíður þingsins frumvarp er lýtur að Ríkisútvarpinu, m.a. um að takmarka þátttöku Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Það er nákvæmlega í anda athugasemda frá Evrópusambandinu, en við erum að aðlaga lagaumgjörð okkar um Ríkisútvarpið að Evrópusambandinu. Einhverjum, þar á meðal þeim sem hér stendur, þykir reyndar nóg um hvernig Ríkisútvarpið hefur aðlagað sig Evrópusambandinu, en þarna er greinilega verið að breyta lagaumgjörðinni eftir þeim athugasemdum sem koma m.a. fram í stækkunarskýrslunni.

Hér hefur líka komið fram frumvarp sem lýtur að friðun fugla, svartfugls meðal annars. Svo ótrúlega vill til að þær tegundir sem á að friða eru einmitt tegundir sem eru friðaðar innan Evrópusambandsins. Ýmislegt svona rekur maður augun í. Það getur vel verið að Íslendingar vilji gera eitthvað fyrir sumar af þeim tegundum sem þarna eru nefndar, en það er heppilegt, ef má orða það þannig, að þetta séu einmitt sömu tegundir og Evrópusambandið rekur hornin í hjá okkur.

Það kemur líka fram í stækkunarskýrslunni að íslensk stjórnvöld eru hvött til að minnka ríkisafskipti af bankageiranum. Ég velti því fyrir mér hvort það frumvarp sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er með á dagskrá þingsins um að selja eignarhlut í fjármálafyrirtækjum eigi að mæta þeirri athugasemd Evrópusambandsins, og hvort næsta einkavæðing bankanna fari fram að kröfu Evrópusambandsins líkt og fyrsta einkavæðingin var afleiðing EES-samningsins. Það kann að vera að þetta gangi allt í hringi.

Það kom fram, ef ég man rétt, hjá þeim ágæta manni sem er hér staddur þessa stundina, Stefan Füle, að hann vildi setjast yfir gjaldeyrishöftin og skoða þau. Það er auðvitað jákvætt ef Evrópusambandið og önnur ríki hafa áhuga á að hjálpa okkur við að aflétta þeim með einhverjum hætti, en að sjálfsögðu eru það fyrst og fremst okkar eigin heimatilbúnu vandamál sem við Íslendingar þurfum að leysa til að koma höftunum frá.

Fram undan er að sjálfsögðu umræða og vangaveltur um þetta gríðarstóra mál sem aðlögun að Evrópusambandinu er og hlut IPA-styrkjanna í því ferli. Þar eru á ferð fjárveitingar til verkefna sem að mínu viti eiga alls ekki öll eitthvað skylt við þær hugmyndir sem ég hef um IPA-styrkina og það sem ég les út úr upplýsingum um þá og í hvað þeir fjármunir eiga að fara. Mér finnst sumt af þessu vera komið töluvert út fyrir það. En þetta verður að sjálfsögðu rætt áfram og síðan þurfum við að velta fyrir okkur því nefndaráliti meiri hlutans sem aðildarferlið, aðlögunarferlið, byggir allt á. Mikilvægt er að velta því fyrir sér hvort ríkisstjórnin og þeir sem leiða ferlið séu á einhvern hátt komnir út fyrir það umboð. Ég hef velt fyrir mér hvort svo sé. Ég hyggst reyna að færa fyrir því rök síðar að svo kunni að vera, en að sjálfsögðu er ekkert einfalt að álykta að svo sé.