140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[20:36]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þá er rétt að upplýsa hv. þingmann um það að það frumvarp sem er í þinginu, um nýskipan ríkisútvarpsmála, tekur m.a. mið af þeim kröfum sem gerðar eru til okkar vegna þess að við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Með þeirri aðild höfum við tekið upp 2/3 af gerðum Evrópusambandsins, held ég að Stefan Füle hafi sagt í grein sinni í Morgunblaðinu, ég hygg að það sé meira en það skiptir engu máli, menn geta reiknað það fram og aftur. Þar á meðal þurfum við að innleiða tilteknar reglur.

Gallinn við það að vera á hinu Evrópska efnahagssvæði, sem hefur breytt samfélaginu hér á undanförnum 18 árum, er auðvitað sá sem hv. þingmaður minntist á, að við tökum við skipunum að utan sem við höfum lítið um að segja þó að við getum einstaka sinnum hrist á okkur lappirnar eins og þingmaðurinn sagði. Kosturinn við það að ganga í Evrópusambandið er sá að þar höfum við rödd, þar sitjum við við borðið og getum haft áhrif á þær ákvarðanir sem okkur koma helst við.