140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[20:39]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir upplýsandi og yfirvegaða ræðu og get tekið undir ýmislegt sem þar kom fram um þessi mál.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um siðferðishliðina í þessu öllu saman, þ.e. hvort honum finnist siðlegt af ríki sem enn er ekki búið að gera upp við sig hvort það ætli í Evrópusambandið — þjóðin hefur ekki fengið aðkomu að því og var síðast í morgun neitað um að koma að þessu ferli og velja sjálf hvort hún telji sig vanta frekari upplýsingar og halda áfram ferlinu — að þiggja alla þessa gríðarlegu fjármuni og ætla svo bara að segja nei.

Þetta tengist í rauninni umræðu sem oft hefur verið mjög villandi í þessum efnum, þ.e. þegar látið er að því liggja að Ísland sé bara að ganga hina hefðbundnu leið sem önnur ríki hafi gengið. Það er að sjálfsögðu ekki þannig. Í öðrum ríkjum hafa þjóðþingin ákveðið að þau vilji ganga í Evrópusambandið, fyrir liggur vilji til að ganga í Evrópusambandið þegar farið er í hið gríðarlega viðamikla aðildarferli sem er einmitt aðlögunarferli eins og þessir styrkir eru aðlögunarstyrkir. Það er vilji til staðar. Er siðlegt að ganga fram með þeim hætti sem við erum að gera?

Ég kem að næstu spurningu minni í næsta andsvari.