140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[20:43]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég held nefnilega líka að spurt verði spurninga um heiðarleika Íslendinga í þessu ferli og það geti komið okkur alvarlega í koll, rétt eins og það kom Norðmönnum í koll þegar upplifunin var sú að þeir hefðu teymt Evrópusambandið á asnaeyrunum.

Ég skal fúslega styðja það að sótt verði um alla styrki Evrópusambandsins þegar við erum komin og orðin aðildarríki að Evrópusambandinu, ef það verður nokkurn tíma, sem ég hef reyndar miklar efasemdir um. Það er allt annað mál en það sem er að gerast hér þegar búið er að lýsa því yfir að ekki eigi að verða nein aðlögun og svo er verið að þiggja aðlögunarstyrki eins og ekkert sé.

Þá kemur að annarri spurningu. Grefur það ekki undan þeirri hugsun að hér sé um samningaviðræður að ræða ef öðrum samningsaðilanum dettur í hug að þiggja svona gríðarlega háa aðlögunarstyrki sem eru beinlínis til þess ætlaðir að hjálpa ríki að innlima sig í sambandið? Styður þetta ekki málstað þeirra sem segja: Þetta eru ekki hefðbundnar samningaviðræður heldur snýst þetta um að Ísland aðlagist Evrópusambandinu?