140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[20:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Frá því að Norðmenn felldu sinn samning síðast hafa ekki farið fram samningaviðræður hjá Evrópusambandinu við þau ríki sem hafa gengið þangað inn. Það var skipt um prógramm, farið var í aðlögunarprógramm og það er það prógramm sem við erum í í dag. IPA-styrkirnir og þeir fjármunir sem hingað eru sendir eru hluti af þessu aðlögunarprógrammi og við erum þar af leiðandi að taka við fjármunum, ef við gerum það, sem eru ætlaðir til þess að aðlaga okkur að Evrópusambandinu. Ef við segjum svo nei hljóta menn að spyrja: Bíddu, af hverju voruð þið að taka við þessum peningum ef þið ætluðuð ekki þarna inn? Við gátum notað þessa aura í eitthvað allt annað. Hvað á þetta að þýða?

Ég hlýt að gera þá kröfu, frú forseti, að þeir þingmenn sem hafa þess kost að hitta stækkunarstjóra Evrópusambandsins sem er hér núna, herra Stefan Füle, spyrji hann að því hvort hann geri sér grein fyrir því að svona sé staðan á Íslandi og hvort þeim hjá Evrópusambandinu sé sama um það og hvort þeir séu sáttir við að þetta haldi áfram með óbreyttu sniði.