140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[21:13]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel það sé fyrst og fremst niðurlægjandi fyrir hv. þm. Mörð Árnason að tala með þessum hætti í ræðustól. Ég hef hvergi í minni ræðu talað um mútur eða niðurlægingu og þess vegna ætti hv. þingmaður að reyna að halda sig við það að vera á málefnalegum nótum (Gripið fram í.) hér sem í öðrum ræðum. Það virðist frekar erfitt fyrir hv. þingmann.

Mér finnst mjög athyglivert að hann gagnrýni það að ég fari yfir samninginn í ræðu minni vegna þess að þetta mál grundvallast á honum.

Varðandi verkefnið um jarðvanginn er þetta frábært verkefni. Mér þætti mikill sómi að því ef við Íslendingar gætum staðið saman um að styrkja verkefni sem þetta. Ég tel hins vegar að það eigi að vera á okkar eigin forsendum og við höfum fulla burði til að taka ákvarðanir um það sjálf hvaða verkefni við viljum ráðast í og hvaða verkefni við viljum styrkja.

Það er mjög athyglisvert að hv. þingmaður velji sér að fara í málið á þennan hátt og láti að því liggja að ég sem þingmaður Suðurkjördæmis og íbúi á þessu svæði vilji ekki framgang þessa verkefnis af því að ég vil ekki að við séum ölmusuþegar hjá Evrópusambandinu, eins og stendur hér, að við séum aðstoðarþegar. Ég tel að við getum tekið sjálfstæðar ákvarðanir utan ESB um að styrkja ýmis verkefni bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni okkur öllum til framdráttar og sérstaklega til að vekja athygli á okkar frábæru náttúru.

Ég tel reyndar að við mættum huga mun betur að hinum dreifðu byggðum í Skaftárhreppi og Skaftafellssýslum (Gripið fram í.) vegna þess að það er virkilega þörf á því að bregðast (Forseti hringir.) við þeim mikla vanda sem steðjar að þeim sveitarfélögum í (Forseti hringir.) byggðamálum, sérstaklega Skaftárhreppi. Ég hvet hv. þingmann til að beita sér (Forseti hringir.) fyrir því innan þingflokks síns.