140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[21:16]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er ágætt að fram komi að öll orðin sem ég notaði hér eru tínd út úr umræðu sem þegar hefur farið fram um þetta mál, að vísu ekki úr ágætlega hófstilltri ræðu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur.

Það er líka rétt að fram komi að ég var ekki að gagnrýna að hér væri farið í gegnum samninginn. Ég tel algjörlega eðlilegt að það sé gert og ég á von á því að hv. formaður utanríkismálanefndar svari síðar í þessari umræðu og vil leggja það til þess máls að þegar rætt er um pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar forsendur í þessum samningi verður auðvitað að muna eftir því að hann er fyrst og fremst gerður fyrir hin nýju umsóknarríki úr Austur-Evrópu. Orðið pólitískur í þessum skilningi varðar sumsé ekki Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu eða annað því um líkt, heldur varðar það lýðræði og mannréttindi fyrst og fremst.

Um jarðvanginn Kötlu hef ég greinilega hitt á eitthvert vitlausabein á hv. þingmanni. Ég spyr hv. þingmann í framhaldinu: Hvað ráðleggur hv. þingmaður Steingerði Hreinsdóttur og öðrum forsvarsmönnum verkefnisins að gera þegar hann (Forseti hringir.) hefur sjálfur komið í veg fyrir að þeir geti fengið þennan IPA-styrk sem þau hafa svo sannarlega (Forseti hringir.) unnið fyrir eins og fram kemur í hinu ágæta blaði Sveitinni?