140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[21:18]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir ágæta ræðu sem hún flutti áðan um þennan rammasamning. Það sem hefur komið fram hér í umræðunni og m.a. í ræðu hennar er nokkuð sem hún gerði kannski meira af en aðrir þingmenn sem hafa talað hér fyrr í kvöld, þ.e. hún fór í það minnsta yfir samninginn og spurði framsögumanninn, hv. þm. Árna Þór Sigurðsson, fjölmargra spurninga. Ég vænti þess að hann svari þeim undir lok umræðunnar ef hann fer ekki í andsvar við hv. þingmann.

Það sem vakir fyrir mér, og hv. þingmaður kom aðeins inn á í ræðu sinni, er hugtakið aðlögun sem hefur farið mjög í skapið á þeim sem standa fyrir aðildarumsókninni og aðildarviðræðunum. Þeir hafa frá því að aðildarumsókn var samþykkt sumarið 2009 má segja barist um á hæl og hnakka til að sverja af sér að hér sé um aðlögun að ræða. Ef maður skoðar þennan samning og greinargerðina og fyrirmyndina frá austantjaldslöndunum getur maður ekki séð annað en þetta séu styrkir til að laga íslenskt samfélag að Evrópusambandinu.

Því vil ég spyrja hv. þingmann af hverju hún telji að þeir sem trúa því að þetta ferli sé svona opinskátt, gegnsætt og gott — og jafnvel sá hluti þeirra sem vilja ganga í Evrópusambandið — vilji ekki kannast við að þetta sé aðlögun. Það er svo miklu heiðarlegri og hreinni umræða að ræða þetta á þeim nótum í stað þess að vera alltaf að fela sig á bak við eitthvað sem ekki er. Samkvæmt því sem ég get best lesið út úr þessu, og mér heyrðist þingmaður (Forseti hringir.) einnig gera, er að IPA-styrkir séu ekkert annað en aðlögunarstyrkir.