140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[21:20]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Ég hef einmitt verið mjög hugsi yfir því síðasta árið eða svo af hverju það er ekki viðurkennt einfaldlega að aðlögun er í gangi, hefur verið í gangi og er á fullri ferð.

Ég tel að það sé vegna þess, frú forseti, að sumir þingmenn fóru mikinn í kosningabaráttunni fyrir síðustu alþingiskosningar og héldu því fram að þeirra skoðun væri sú að við ættum ekki samleið með Evrópusambandinu. Hinir sömu þingmenn urðu síðan að styðja tillögu ríkisstjórnarinnar um að sækja um aðild. Einhvern veginn þurfa menn að reyna að komast standandi út úr því að fara svo gegn því sem þeir héldu fram gagnvart kjósendum sínum. Ég held að þetta sé þeirra aðferð til þess. Ég get ekki lesið annað út úr því. Ég er svo sem ekki með neina skyggnigáfu en þetta eru þær ályktanir sem ég dreg, bæði af því sem rætt hefur verið í þessum sal og út frá því að ýmsir þingmenn sem ekki eru þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa sagt að aðlögun sé í gangi.