140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[21:22]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Forseti. Það má vera að þetta sé ástæða þess að menn eiga erfitt með að viðurkenna aðlögunarferlið. Ég hef ákveðinn skilning á því en fyrir vikið hef ég enn minni skilning á þeim sem er þetta hjartans mál og trúa því að það sé rétt að Ísland gangi í Evrópusambandið, ekki einasta að við séum í þessum aðildarviðræðum heldur vilja þeir að við göngum alla leið, því að sá hópur virðist ekkert vera síður haldinn þessari hræðslu við að viðurkenna aðlögunarferlið.

Það voru fyrst og fremst þingmenn Vinstri grænna sem fóru út í kosningabaráttu um að þeir ætluðu aldrei að sækja um aðild að Evrópusambandinu, en standa síðan að því. Þeir tóku líka þátt í að greiða atkvæði við fjárlagagerðina. Ég vil spyrja hv. þingmann hver siðferðisstaða þeirra verður gagnvart (Forseti hringir.) því að hafa greitt atkvæði við fjárlagagerðina (Forseti hringir.) og sitja svo í súpunni ef þeir hafna þessum IPA-styrkjum. Hvernig horfir við þingmanninum sú staða (Forseti hringir.) sem þeir (Forseti hringir.) þingmenn eru í?