140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[21:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ákveðna samúð með hv. þingmönnum Vinstri grænna sem þurftu að fara gegn sannfæringu sinni til að ná völdum og vera í ríkisstjórn með Samfylkingunni, að mínu mati, og styðja að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Ég mundi ekki vilja vera í þeirra sporum og þurfa að rökstyðja það eftir því sem sporin verða fleiri inn í aðlögunarferlið. Það er öllum mönnum ljóst að við erum í þessu aðlögunarferli og erum að aðlagast Evrópusambandinu. Ég tel þá hv. þingmenn ekki öfundsverða að vera í þessari stöðu.

Ég veit ekki hvernig hinir sömu hv. þingmenn rökstyðja þetta svo fyrir kjósendum sínum þegar þeir (Forseti hringir.) rekast á þá á förnum vegi vegna þess að ég hitti fullt af fólki (Forseti hringir.) sem greiddi Vinstri grænum atkvæði sitt vegna stefnu flokksins í Evrópumálum.