140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[21:25]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og innlegg í þessum efnum. Ég vil halda því til haga að ég staðhæfði ekki í ræðu minni, hv. þingmaður kom inn á það. Ég staðhæfði ekki að við mundum lenda í vandræðum ef svo má segja, en ég velti því upp. Mér finnst það spurningarinnar virði hvort þetta sé heiðarleg framganga.

Mér fannst, virðulegi forseti, orðaskipti hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur og hv. þm. Marðar Árnasonar vera mjög lýsandi fyrir þá erfiðu stöðu sem fólk sem mótmælir þessum styrkjum er sett í. Þetta eru að sjálfsögðu frábær verkefni sem allir vilja styðja. Ég segi fyrir mína parta að ég vil svo sannarlega styðja frábær verkefni og gott framtak. Þá er maður settur í þá ömurlegu stöðu að segja: Því miður, það eru allt of stórar spurningar varðandi það að þiggja þetta fé fyrir ríki sem er ekki enn búið að gera upp við sig hvort það ætli yfir höfuð að ganga í Evrópusambandið og fór í viðræðuferli á annars konar forsendum en mörg önnur ríki hafa gert.

Mig langar að biðja hv. þingmann að svara sínum eigin spurningum ítarlegar. Hvers vegna eyðir ESB peningum sínum í þessi góðu verkefni? Er það til þess að setja okkur í þessa erfiðu stöðu? Þurfum við að svara fyrir það hvers vegna hv. þingmenn Suðurlands bregðast (Forseti hringir.) kjósendum sínum þar? Hvers vegna er svona gríðarlega mikilvægt að þetta sé sýnilegt? (Forseti hringir.) Ég bið hv. þingmann um að svara þeim spurningum sem hún spurði sjálf.