140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[21:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Stórt er spurt og aðeins ein mínúta til ráðstöfunar.

Í fljótu bragði detta mér engir samningar milli einstakra ríkja í hug, en ég get tekið mið af samningaviðræðum inni á mínu eigin heimili þar sem stöku sinnum bregður móðirin á það ráð eftir langar fjarvistir frá heimili þegar börnin vilja ekki láta að stjórn að lofa gulli og grænum skógum gegn því að fá eitthvað endurgjald. Þetta er sú samlíking sem ég get tekið úr mínu daglega lífi. Það er spurning hvort þetta sé nokkuð sem maður á að gera því að samkvæmt uppeldishandbókum er það ekki gott.

Varðandi það sem hv. þingmaður kom aðeins inn á, samanber þá tillögu að biðja Evrópusambandið frekar að ráðstafa þessum fjármunum til Grikklands eða eitthvert annað, er það góðra gjalda vert og væri bara ágætt, en við höfum ekkert um það að segja hvernig ESB eyðir fé sínu. Það velur að gera það hér. Það er athyglisvert að við sem eigum ekki mikil fjárráð akkúrat á þessum tímum (Forseti hringir.) skulum þurfa að standa í umræðu eins og ég þurfti að gera við hv. þm. Mörð Árnason sem spurði: Hvað á Steingerður Hreinsdóttir (Forseti hringir.) sem fer fyrir jarðvangnum að gera? Hvert á hún annað að sækja sér peninga? (Gripið fram í.) Er verið að nota okkar bágu (Forseti hringir.) fjárhagsstöðu til að reyna að koma okkur í Evrópusambandið? (Gripið fram í.) (MÁ: Hefur þú …) (Gripið fram í.)

(Forseti (ÞBack): Gefum hljóð í þingsal.)