140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[21:56]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög góð spurning. Auðvitað væri best að fá svarið frá annaðhvort fulltrúum Evrópusambandsins sjálfs eða jafnvel enn betra frá hv. þingmönnum sem sitja hér á þingi sem trúa því að þetta sé hið eina rétta og að það sé mjög mikilvægt að þetta sé gert með þessum hætti.

Þessi grein hljómar svona, með leyfi forseta:

„Hvetja ber eindregið til að aðstoðarþeginn tileinki sér áætlanagerð og framkvæmd aðstoðar og tryggja ber viðeigandi sýnileika aðstoðar ESB.“

Í mínum huga er þetta afhjúpun þess sem ég var að tala um og mér finnst í raun hálfógeðfellt, þ.e. þess siðferðisbrests þar sem risastór aðili er í samningaviðræðum við lítinn aðila og ber í hann fé og vill tryggja að það sjáist að hann sé að styrkja hann og að litið sé til hans sem góðrar stofnunar, að þarna sé sá góði sem komi til hjálpar.

Ég verð að segja það alveg eins og er að þegar maður, hvaða einstaklingur sem er, styrkir einhver góðgerðarmál eða góð mál í samfélaginu finnst mér það persónulega verra að nafn hans komi þar fram. Ég mundi gjarnan vilja gera það nafnlaust.

Hér er akkúrat hið gagnstæða á ferðinni. Hér segir aðilinn sem kemur inn með féð: Hér kem ég. Ég er góði aðilinn. Sjáið hvað ég er góður. Ég styrki þetta málefni og þið verðið að láta það koma fram í auglýsingunni.

Það er ekkert ósvipað því þegar stórfyrirtækin styrkja eitthvað, til dæmis í sjónvarpsþáttum, fótboltaleikjum eða Eurovision eða hvar það nú er, þau verða alls staðar að koma nafni sínu að til þess að við fáum þá ímynd (Forseti hringir.) að þarna sé góður aðili á ferð sem ætli sér ekkert illt (Forseti hringir.) en gangi á undan með góðu fordæmi.