140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[21:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það var einmitt það sem ég hugsaði þegar ég heyrði á tal hv. þingmanna í andsvörum hér áðan að það væri nokkuð augljóst hvað viðkomandi forstöðumaður þessara verkefna ætti að gera. Auðvitað á hann að treysta því að meiri hluti þingsins sem samþykkti að setja fjármuni til þessa verks standi við orð sín, það hlýtur að vera. Hæstv. utanríkisráðherra hefur lýst því að verði IPA-styrkirnir ekki að veruleika verði fjármunir greiddir úr ríkissjóði. Það hlýtur að vera. Það er augljóst. Menn hafa hreinlega valið þessi verkefni og sagt að þau séu betri en önnur. Það verkefni sem okkur hefur verið tíðrætt um er ákaflega gott og öflugt verkefni sem mun skila miklu til svæðisins og landsins alls.

Stóra spurningin er þessi: Hvað höfum við eytt miklum fjármunum í aðildarviðræðurnar til þessa? Hvernig hefðum við getað notað þá peninga til góðs? Og síðan má bæta við: Hvað höfum við eytt miklu vinnuafli, þreki og samstöðu í þjóðinni sem hefur horfið, þar sem (Forseti hringir.) búið er að kljúfa þjóðina í tvær fylkingar út af þessu máli? (Forseti hringir.) Ef við hefðum ekki farið í þetta vitlausa ferli á sínum tíma heldur eytt öllum kröftum okkar og vinnu embættismanna í að bæta (Forseti hringir.) samfélagið hefðum við kannski ekki þurft á slíkum fjármunum að halda sem nú er verið að taka við í formi IPA-styrkja.