140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[22:03]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason, sem var áður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þekkir því vel til verkferils í þessu máli, bendir á að í skýrslu utanríkisráðherra sé ekkert verið að mála þetta sérstökum felulitum eins og svo margir þingmenn stjórnarinnar og hæstv. ráðherrar virðast gera af ótta við að viðurkenna.

Ég hef spurt nokkra þingmenn í dag af hverju þessi feimni sé við að viðurkenna að um aðlögun er að ræða. Ég get ekki skilið það. Það væri miklu hreinlegra og skynsamlegra og heiðarlegra, að sjálfsögðu, að segja beint út að um aðlögunarstyrki er að ræða og reyna síðan að sannfæra okkur hin sem teljum það siðferðislega rangt og hreinlega óheiðarlegt að taka við styrkjum af samningsaðila á meðan á samningsferli stendur, sérstaklega í ljósi þess að mikill meiri hluti þjóðarinnar er á móti því að ganga í Evrópusambandið (Gripið fram í.) samkvæmt skoðanakönnunum.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að munurinn á íslenska ferlinu og því ferli sem hafði verið viðhaft gagnvart öðrum ríkjum væri meðal annars fólginn í því, og það væri ástæðan fyrir því að menn vildu ekki tala um aðlögun, að ekki ætti að breyta neinum stofnunum fyrr en eftir að samningur lægi fyrir og hefði ef til vill verið samþykktur.

Ég vil því spyrja hv. þingmann, sem hefur reynslu sem ráðherra, hversu langan tíma (Forseti hringir.) það tæki til dæmis í landbúnaðargeiranum eftir að samningur lægi hugsanlega fyrir og yrði samþykktur — hvort það sé rétt að það yrðu á bilinu (Forseti hringir.) tvö og hálft til þrjú ár sem það tæki eftir á og hvort biðlund þeirra sem vilja ganga í Evrópusambandið, ef sú niðurstaða yrði, (Forseti hringir.) mundi duga.