140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[22:08]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Við höfum rætt aðeins um verkefnið Kötlu jarðvang, sem er afar merkilegt af ýmsum sökum, og hafi hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson misst af því þá standa þrjú sveitarfélög á Suðurlandi að því verkefni. Það eru Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur og Rangárþing eystra. Síðan koma að því ýmsir aðrir en ekki síst er það Atvinnuþróunarfélag Suðurlands og Steingerður Hreinsdóttir sem þar ræður ríkjum og hefur haft veruleg áhrif á það verkefni.

Það er ekki núna í kvöld sem þetta kemur fyrst fyrir á þingi heldur var þetta meðal annars rætt í tengslum við fjárlögin og kemur að minnsta kosti fram í meirihlutaáliti fjárlaganefndar hvernig styrkveitingum til þessa verkefnis verður háttað.

Mig langar að vita, af því að ég fylgdist ekki nógu vel með afgreiðslu fjárlaga, með hvaða rökum hv. þingmaður lagðist í ræðu sinni gegn því að verkefnið Katla jarðvangur fengi styrk af þessu tagi — andmælti því í fjárlaganefnd en þó sérstaklega hér í stólnum á sínum tíma — þegar fjárlögin voru afgreidd síðasta haust og hverju hann lofaði þá í staðinn eða hver hann teldi að yrði framtíð verkefnisins næstu missiri án IPA-styrksins.