140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[22:10]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt að hv. þingmaður væri að grínast þegar hann hóf ræðu sína á því að spyrja mig út í þetta verkefni af því að hann hefði misst af því, eins og hann orðaði það. Hv. þingmaður veit væntanlega að sá er hér stendur er einn af þingmönnum Suðurkjördæmis og þekkir þetta verkefni út og inn. Á fjárlagaárinu 2010, vegna ársins 2011, barðist sá er hér stendur fyrir því að þetta verkefni fengi fjárveitingu á fjárlögum umfram þá hálfu milljón sem meiri hluti fjárlaganefndar var tilbúinn að leggja til verkefnisins — ég man ekki hvort fjárhæðin hækkaði í 1,5 eða 2 milljónir til að koma verkefninu af stað.

Ég þekki þetta verkefni ákaflega vel og hef ekki lagt stein í götu þess á nokkurn hátt. Ég hélt því hins vegar fram í ræðu minni að verkefnið ætti ekki að vera háð því að fá IPA-styrk frá Evrópusambandinu. Ef verkefnið er jafngott og ég tel það vera, og ég heyri að hv. þm. Mörður Árnason er sammála um það, þá er fullkomlega eðlilegt að við séum tilbúin á fjárlögum íslenska ríkisins að setja fjármuni í það til að byggja það upp.

Þetta er sannarlega gott verkefni, samstarfsverkefni hjá þremur sveitarfélögum og fleiri aðilum, að styrkja þarna ferðaþjónustu, sögu, menningu, náttúrufræðiminjar, söfn og ýmis þau verkefni sem að því lúta. Svæðið frá Markarfljóti austur að Höfn á við ákveðinn vanda að stríða út af verulegri fólksfækkun og það vantar fleiri atvinnuþætti til að styrkja svæðið.

Ég fagna satt best að segja áhuga hv. þm. Marðar Árnasonar á þessu verkefni og get ekki ímyndað mér annað en að hann verði þá stuðningsmaður þess í framtíðinni að þetta verkefni og sambærileg góð verkefni fái stuðning í gegnum fjárlagagerðina.