140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[22:12]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það kemur í ljós í þeirri þögn sem fólst í svari hv. þingmanns að hann hefur ekki mótmælt því í fjárlaganefnd eða hér í ræðustól að Kötlu jarðvangi væri ætlaður þessi styrkur frá IPA á sínum tíma. Það er ekki fyrr en núna þegar þingmaðurinn þarf að tala í málþófi að hann leggst gegn þessu. (UBK: Hvað áttu við?) Það er sérkennileg tvöfeldni af hálfu þingmannsins að fallast á það með þögninni um haustið en mótmæla því síðan um vorið.

Annað sem ég ætla að spyrja hv. þingmann kemur fram í blaðinu Sveitinni, sem nokkuð hefur verið rætt hér í kvöld, að aðstandendur Kötlu jarðvangs hafi í rúmlega eitt ár verið í undirbúnings- og umsóknarferli um þennan IPA-styrk. Hafi þingmaðurinn, sem ég efast ekki um, fylgst svona vel með þessu verkefni eins og hann segist hafa gert, hvað hefur hann þá gert (Forseti hringir.) til að koma í veg fyrir að það aumingjans fólk sem hér er (Forseti hringir.) nánast orðið hreppsómagar hjá Evrópusambandinu, ef trúa má hv. þingmönnum, láti ginna sig á þennan hátt?