140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[22:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum IPA-styrki, þ.e. rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf, sem er í formi þingsályktunartillögu. Ágætur maður komst að því fyrir nokkru síðan að enginn borgarmúr væri svo hár að asni klyfjaður gulli kæmist ekki yfir. Þetta sagði Filippus Makedóníukonungur í fornöld. Þetta er sígilt, þetta er notað í dag mjög víða. Mjög margir, sérstaklega stórfyrirtæki, alþjóðleg stórfyrirtæki, fyrirtækjahringir, ríki og aðrir hafa fyrir löngu uppgötvað gildi auglýsinga og styrkja. Þetta loðir við íþróttagreinar eins og fótbolta, þetta loðir við áfengisauglýsingar, auglýsingar yfirleitt. Þingmenn gera sér fullkomlega grein fyrir þessu. Þeir hafa margir lagt til og komið í gegn auglýsingabanni og styrkjabanni, menn mega til dæmis ekki styrkja áfengi, ýmislegt sem varðar óhollustu og annað slíkt. Þingmenn hafa fyrir löngu komið auga á að styrkir og auglýsingar hafa mikil áhrif til að móta skoðanir fólks. Verðmætustu vörumerki heimsins, t.d. Coca Cola og Microsoft og önnur slík, nota einmitt ótæpilega styrki og auglýsingar.

Þegar til viðbótar kemur atvinnuleysi, kyrrstaða og doði, þökk sé núverandi hæstv. ríkisstjórn, sem er reyndar stöðugt að auglýsa ný störf — ég man ekki hvað talan var komin upp í, hún er búin að gera það nánast reglulega, 4 þúsund störf, 6 þúsund störf, núna 10 þúsund störf o.s.frv. — og svo hefur fólk spurt mig: Hvar sækir maður um þessi störf?

Frú forseti. Það er víst eitthvað erfitt, þau eru kannski helst í Noregi. En atvinnuleysið og kyrrstaðan gerir menn alveg sérstaklega viðkvæma fyrir svona styrkjum.

Ég get vel ímyndað mér að forritari sem getur fengið vinnu á Íslandi í gegnum styrki frá Evrópusambandinu sé ögn jákvæðari gagnvart því sambandi frekar en að þurfa að fara til Noregs frá fjölskyldu sinni jafnvel til að leita að vinnu. Þannig að hann er mjög viðkvæmur fyrir þessum styrkjum.

Trójuhestur er þekkt fyrirbæri, það var risastór tréhestur sem Grikkir smíðuðu í Trójustríðinu og skildu eftir fyrir utan borgarmúra Tróju eða svo segir sagan. Svo þóttust þeir fara en skildu eftir inni í hestinum nokkra hermenn sem opnuðu um nóttina borgarhlið Tróju og þá komu Grikkirnir utan af hafinu og komust inn fyrir borgarmúrana. Ég lít svo á að þessir styrkir séu einmitt þess lags trójuhestur. Svo hefur líka verið talað um fimmtu herdeildina sem menn þekkja líka. (Gripið fram í.) Fimmta herdeildin var herdeild sem starfaði innan landamæra ákveðins lands í þágu annars lands án þess að menn vissu af eða væri kunnugt um. Allt er þetta svipað.

Hér hefur nokkuð verið rætt um siðferði. Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir ræddi einmitt um siðferðið. Er siðferðislega rétt að þiggja styrki frá Evrópusambandinu þegar maður ætlar ekki að ganga þar inn, er það siðferðislega rétt? Mega menn gera svona? Ég held reyndar að afstaða milli ríkja og gagnvart ríkjum byggist á hagsmunum en ekki tilfinningum. Ríki eru ekki vinir. Það kom í ljós þegar Íslendingar áttu í sem mestum vandræðum eftir hrunið og voru að leita að stuðningi út af Icesave til að fjármagna gjaldeyrissjóðinn að meira að segja Norðmenn settu það skilyrði fyrir sínum stuðningi við að veita styrki eða lán til Íslands að Íslendingar samþykktu Icesave vegna þess að hagsmunir Norðmanna af góðu sambandi við Breta vógu miklu þyngra en hagsmunir Norðmanna af góðu sambandi við Íslendinga. Menn geta svo talað um vináttu þar og ég veit ekki hvað og hvað en það skiptir ekki máli í samskiptum þjóða. Evrópusambandið er ekki vinur Íslendinga, það er ekki að veita þessa styrki til að vera gott við Íslendinga, alls ekki. Menn hafa bara ákveðna hagsmuni af því, þeir ætla að fá þetta fé endurgreitt í einhverjum skilningi, t.d. með því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Sumir hafa sagt það, þeir nái í fyrsta lagi í þetta stóra land undir sín landamæri, í öðru lagi nái þeir í auðlindir Íslands og svo kannski aðgang að norðursvæðinu sem er líka eitt annað dæmi. Að sjálfsögðu er Evrópusambandið ekki að gera neitt gott fyrir Íslendinga. Það skyldi enginn láta sér detta í hug.

Þetta er líka spurningin um siðferði stjórnmálaflokka gagnvart kjósendum sínum og þar komum við aftur að virðingu og ábyrgð, hvort menn standi við kosningaloforð. Nú er það svo merkilegt að sigurvegari síðustu kosninga, í maí 2009, voru Vinstri grænir og á hverju skyldu þeir hafa sigrað? Hverju héldu þeir mest fram í þeim kosningum? Jú, þeir ætluðu ekki að ganga til samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þeir ætluðu ekki að samþykkja Icesave og þeir ætluðu ekki að ganga í Evrópusambandið, alls ekki. Svo samþykkja þeir samt að ganga í Evrópusambandið 16. júlí 2009. Og ég má til með, frú forseti, til að undirstrika þetta siðferðisbrot eða trúnaðarbrot, að lesa ræðu hæstv. umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, í atkvæðaskýringu við þá aðildarumsókn sem haldin var 16. júlí 2009, og nú tala ég fyrir hönd hæstv. umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur, með leyfi forseta:

„Frú forseti. Ég hef þá sannfæringu að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess. Ég hef þá sannfæringu að bandalagið sé á krossgötum eins og heimurinn allur og þurfi á endurmati að halda. Þar þurfi að efast um mælikvarða, grundvöll og forsendur þess samfélags sem við höfum byggt á Vesturlöndum undanfarinna áratuga. Ég hef þá sannfæringu að lýðræðið sé fyrir borð borið í Evrópusambandinu vegna þess að valdið er of langt frá fólkinu. Ég hef þá sannfæringu að markmið Evrópusambandsins sé að verða stórt og sterkt og hugsanlega sjálfstæður gerandi í stríði á forsendum valdbeitingar og yfirgangs eins og um hernaðarbandalag væri að ræða.

Ég hef þá sannfæringu að Evrópusambandið snúist um forréttindi Vesturlanda umfram fátækustu ríki heims og það orki tvímælis að keppast við að koma okkur í slíkan félagsskap nú þegar fátæktin í heiminum verður sífellt alvarlegri og leiðrétting á misskiptingunni sífellt meira aðkallandi.

Ég hef þá sannfæringu að Evrópusambandið snúist um hagsmuni á forsendum 20. aldarinnar en ekki þeirrar 21. Ég hef líka sannfæringu fyrir því að það séu breyttir tímar á Íslandi. Ég hef þá sannfæringu að í svo stóru máli eigi almenningur allur milliliðalaust að fá aðkomu að aðildarsamningi Íslands og Evrópusambandsins og segi já.“

Og segir já, frú forseti, við því að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Þetta er náttúrlega alveg með ólíkindum, og hvað er þessi ræða að segja? Þarna er þingmaðurinn að greiða atkvæði gegn sannfæringu sinni af því að hún talar stöðugt um sannfæringu. Þetta átti við um marga þingmenn Vinstri grænna. Þeir greiddu atkvæði gegn sannfæringu sinni og það útskýrir allt sem þeir eru að gera síðan í sambandi við Evrópusambandið og margt fleira.

Svo er þetta líka spurningin um vinnubrögðin á Alþingi. Vegna þessarar tvíátta stefnu hæstv. ríkisstjórnar — að vilja ganga í Evrópusambandið, annar flokkurinn, og að vilja ekki ganga í Evrópusambandið, hinn flokkurinn, eins og hér kom skýrt fram, en samþykkja það samt — hafa orðið stöðugar deilur innan Alþingis. Þegar ríkisstjórn hefur ekki eina stefnu verða stöðugar deilur og þetta skaðar þjóðina gífurlega mikið.

Þegar þetta mál var tekið út, sem var víst í morgun eða gærmorgun, var það gert með mjög undarlegum hætti, sem útskýrir það sem ég er að tala um að þegar menn stefna í tvær áttir þurfa þeir að nota öll tækifæri til að koma málum fram. Til dæmis það að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir mætti of seint á fund og þá er málið rifið út. Ég man ekki eftir svoleiðis vinnubrögðum nokkurn tíma áður. Þetta var ekki tískan þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórn, þá var frekar beðið eftir fólki, ef fólk gat ekki mætt, var kannski á öðrum fundum eða eitthvað slíkt var beðið eftir fólki. Fundum var frestað til að safna saman atkvæðum nefndarmanna og allt gert til þess að vilji nefndarmanna kæmi fram. En að nota tækifærið þegar menn eru ekki mættir til að koma málum fram er mjög slæmt, frú forseti, og það helgast af þeirri tvístefnu sem ríkisstjórnin er með, hún er að stefna til Evrópusambandsins og frá því. Þetta hefur mjög alvarleg áhrif á samstarf þingmanna.

Hvernig halda menn að þingmenn sem verða fyrir þessari reynslu — eins og var þegar þetta var afgreitt frá nefndinni að þingmaðurinn fékk ekki að koma að málinu, og þetta er að gerast víðar, ekki bara í þessari einu nefnd, hv. utanríkismálanefnd, heldur víðar — geti svo unnið saman í sínum þingflokkum eða milli þingflokka þar sem slík mál koma fyrir æ oftar? Þetta er mjög skaðlegt og þetta er mjög skaðlegt fyrir þingið.

Hv. þm. Mörður Árnason hefur nokkuð oft spurt menn hvort þeir ætli ekki að taka þátt í að gefa gullið sem asninn ber yfir borgarmúrana, hvort þeir ætli virkilega ekki að styrkja þetta verkefni í Skaftárhreppi. Getur það verið að menn ætli að vera á móti góðu verkefni í sínu eigin kjördæmi? Hvað er hv. þingmaður að segja? Hann er að segja: Þið eigið að gefa gjafir Evrópusambandsins með glöðu geði.

Það getur vel verið að það sé gott til skamms tíma að þiggja svona styrki og er eflaust en til langs tíma getur þetta orðið mjög skaðlegt fyrir þjóðina. Að mínu mati yrði aðild að Evrópusambandinu mjög skaðleg fyrir þjóðina, mjög skaðleg.

Ég er búinn að lesa nokkrar umsagnir sem um málið bárust og þar er kannski fyrst að nefna frá Bændasamtökunum. Ég ætla ekki að fara neitt mjög ítarlega ofan í það sem Bændasamtökin segja, menn þekkja afstöðu þeirra, hún er svipuð og mín, þau vilja standa vörð um sjálfstæði Íslands og fullveldi, við börðumst ekki svo lítið fyrir sjálfstæðinu á sínum tíma. Ég tel að aðild að Evrópusambandinu yrði mjög skaðleg fyrir Ísland enda höfðum við af því 600 ára reynslu að vera í sambandi við þjóðir í Evrópu, fyrst Norðmenn og síðar Dani, og í kjölfarið varð Ísland fátækasta þjóðin í Evrópu, bjó í moldarkofum, og hafði fækkað en ekki fjölgað. Það var ekki vegna þess að fólk fór úr landi heldur dó það úr ófeiti sem kallað var.

Eftir að við fengum fullveldi 1918 hefur gengið bara ansi vel þó að skrykkjótt sé, það hefur gengið skrykkjótt en upp á við, og nú er Ísland þrátt fyrir hrunið með ríkari þjóðum í Evrópu. Þess vegna er alveg fráleitt að Ísland sé að þiggja styrki einhvers staðar frá. (Gripið fram í.) Ég tek því undir umsögn Bændasamtakanna.

Síðan kemur Hagstofa Íslands og það er einmitt aðili sem er að njóta þessara styrkja. Þeir kvarta undan því með réttu að þeir geti ekki fullnægt alls konar tölfræði- og hagskýrslugerð sem EES-samningurinn krefst vegna þess að það skorti fé. Nú kemur hér allt í einu fé eins og af himnum ofan og að sjálfsögðu er Ólafur Hjálmarsson, skrifstofustjóri Hagstofunnar, mjög ánægður með að geta farið út í alls konar verkefni sem hann gat ekki farið í áður og komið með fínar hagskýrslugerðir og annað slíkt. Þetta er eðlilegt þegar menn horfa á þann enda einan sér en þegar menn horfa á heildardæmið, að það sé verið að kaupa menn til fylgis við Evrópusambandið, getur þetta verið mjög skaðlegt. Auðvitað eiga Íslendingar að borga þetta sjálfir.

Svo er hér umsögn frá Rannís sem Hallgrímur Jónasson skrifar undir og þar segir, með leyfir forseta:

„Fram hefur komið í aðdraganda þessa máls að stuðningur úr svokölluðum IPA-sjóðum kann að vera af margvíslegum toga, en að því er virðist fyrst og fremst til að styrkja innviði viðkomandi þjóða. Augljóst er að það skiptir miklu máli fyrir ESB að umsóknarlönd séu sem best undir það búin að verða þátttakendur í því samstarfi sem vera í sambandinu býður upp á.“

Hann er sem sagt að segja þarna, frú forseti, greinilega og beint út að IPA-styrkirnir eigi að undirbúa Íslendinga til að verða aðilar að Evrópusambandinu. Hann segir það beint út, enda held ég að allir ættu að vita það. Svo segir áfram, með leyfi frú forseta:

„Rannís hefur í mörg ár verið tengiliður við svokallaðar rammaáætlanir um rannsóknir og nýsköpun og verður ekki annað sagt en að verkefnin hafi reynst mjög vel fyrir íslenskt samfélag, hvað varðar uppbyggingu þekkingar, tækniyfirfærslu og nýsköpun. Regluverkið krefst auk þess aga sem gerir ekkert annað en að styrkja starf hér heima.“

Sem sagt, Íslendingar eru að sækja aga og fé til Evrópusambandsins til að stuðla að rannsóknum hér innan lands. Hvers vegna í ósköpunum gerum við það ekki sjálf, ein ríkasta þjóð Evrópu?

Svo kemur alveg sérkapítuli, frú forseti, sem við ræðum reyndar á eftir í dagskránni sem eru skattar og gjöld af þessum styrkjum. Það kemur nefnilega fram beint í samningnum að það eigi ekki að greiða skatta eða gjöld af þessum samningi, og það stendur hérna í athugasemdum við tillöguna:

„Enginn hluti IPA-aðstoðar rennur því til að greiða skatta eða önnur opinber gjöld og mun fjármálaráðherra leita eftir viðeigandi breytingum á skattalögum í því skyni með sérstöku frumvarpi.“

Það er sem sagt í gangi núna og þá gæti ég talað, held ég, í klukkutíma um það atriði, um forréttindastéttir sem ekki borga skatta en nota velferðarkerfið, nota vegina og nota alla þessa samneyslu sem við erum með. (Gripið fram í: Evrópuelítan.) Það er ekki bara Evrópuelítan, þetta er um allan heim að utanríkisþjónustan hefur komið sér í þessa stöðu, svona forréttindastöðu, og vill að sjálfsögðu ekki gefa eftir þau forréttindi.

En það sem er kannski athyglisverðast í þessu öllu saman er ferlið. Hvenær var skrifað undir þennan samning? Í tillögunni kemur fram að það var skrifað undir þetta í Brussel, að sjálfsögðu, 8. júlí 2011. Kristján Andri Stefánsson, sendiherra lands, og tengiliður IPA skrifuðu undir fyrir hönd Íslands 8. júlí 2011. Hvaða dagur er í dag? Hvert erum við komin í þessari umræðu? Það er kominn maí 2012, það eru tíu mánuðir frá því að skrifað var undir. Hvað hefur ríkisstjórnin verið að gera allan tímann með þessari óskaplega góðu verkstjórn sinni, hvað hefur hún verið að gera? Af hverju var þetta ekki lagt strax fyrir Alþingi? Hvers vegna þurfti að bíða? Af hverju kom fjármálaráðherra ekki strax með frumvarpið um IPA-styrkina og skattfrelsið? Hann kom reyndar með það dálítið fljótlega, en að vinnslan skuli taka þetta langan tíma og að þingmenn viti ekki einu sinni af þessu þegar verið er að samþykkja fjárlög finnst mér alveg óbærilegt. Mér finnst að ríkisstjórnin ætti að fá sér einhverja verkfræðinga til að skipuleggja ferlið hjá sér þannig að það verði einhver verkstjórn á þessu hjá henni.