140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[22:36]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér þótti athyglisvert að hv. þingmaður notaði myndlíkingar í upphafi ræðu sinnar og þær voru allar dregnar úr átökum, úr styrjöldum. Fyrst var asninn klyfjaður gulli sem kemst yfir hinn hæsta borgarmúr og það er vissulega, ef ég man rétt, frá Forn-Grikkjum og er væntanlega dregið úr styrjöldum borgríkja þeirra. Síðan talaði þingmaðurinn um Trójustríðið og trójuhestinn og að lokum minntist hann á fimmtu herdeildina en hún er reyndar ekki frá Grikkjum eða forverum þeirra heldur frá síðustu öld, úr Spánarstríðinu þar sem herforingi fasista, herforingi Francos, stóð fyrir utan Madrídarborg þar sem lýðveldissinnar voru og sagðist hafa fjórar herdeildir utan borgarmúra og eina innan borgarmúra. Menn muna hvernig það stríð fór og hvaða tilfinningar voru því bundnar og síðan hefur þetta hugtak, fimmta herdeildin, verið frægt og ekki mjög þekkilegt.

Mig langar að vita hvað hv. þingmaður á við með því að vitna til hinnar fimmtu herdeildar fasista innan borgarmúra Madrídar í þessu máli. Hverjir eru í fimmtu herdeildinni í Evrópusambandsmálinu á Íslandi vorið 2012?