140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[22:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki skrýtið að ég skuli draga fram myndir af átökum. Þessi ríkisstjórn hefur sótt í átök ef þau er að hafa einhvers staðar. Allt sem hún gerir er í átökum, meira að segja eru breytingar á stjórnarskrá (Gripið fram í: Já.) í átökum sem á þó að vera samnefnari fyrir alla þjóðina. Allt er gert í átökum. Það logar allt í átökum, innan stjórnarflokkanna logar allt í átökum þannig að það er ekki skrýtið þótt ég dragi fram myndlíkingar af átökum. Þessi hæstv. ríkisstjórn er búin að gera Ísland að átakasvæði, því miður.

Varðandi það hverjir skyldu skipa þessa fimmtu herdeild hér á Íslandi — hv. þingmaður vill fá mig til að nefna einhver nöfn, ég geri það ekki. Það verður hver og einn að eiga við sig. Hv. þingmaður getur reynt að finna út hverjir það eru sem vilja endilega að Íslendingar afsali sér fullveldinu. Til dæmis þróast Evrópusambandið mjög hratt í átt til ríkis. Þeir eru farnir að tala um það sjálfir, Evrópusambandið er farið að tala um það sjálft og þýski stjórnlagadómstóllinn hefur varað við þeirri þróun að Þýskaland hafi ekki jafnmikið atkvæðavægi og íbúafjöldinn gefur til kynna þannig að flestir eru búnir að átta sig á því að Evrópusambandið er að verða ríki. Það vantar enn þá her en það er kominn sameiginlegur gjaldmiðill, þing, ríkisstjórn o.s.frv., allt það sem prýðir eitt ríki.

Ef Ísland gengur í Evrópusambandið hefur það ekki lengur fullveldi. Það getur til dæmis ekki gert samninga við Kína. Það mundi Evrópusambandið sjá um þannig að Íslendingar eru að afsala sér stórum hluta af fullveldinu og sífellt stærri. Ég spyr: Hvað hefðu Jón Sigurðsson og aðrir baráttumenn fyrir fullveldi Íslands sagt ef þeir vissu þetta og hverja mundu þeir skilgreina sem fimmtu herdeildina?