140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[22:40]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það að kasta mykju úr dreifaranum og þora ekki að kannast við hverja átt er við á sér orð í íslensku, það eru dylgjur. Það eru dylgjur að tala um fimmtu herdeildina og geta svo ekki nefnt nein nöfn í því sambandi.

En fyrst þingmaðurinn vill það skal ég koma með tilgátu í því sambandi. Það er nefnilega svo að það ríkja engin átök á milli Evrópusambandsins, sem er bandalag 27 ríkja í Evrópu, stórra og smárra, og lýðveldisins Íslands eða stjórnvalda í því landi. Það er gott að átta sig á því í upphafi þeirrar umræðu sem hér fer fram að styrkjamálið og þau frumvörp og þingsályktunartillaga sem liggur frammi sprettur af því að meiri hluti Alþingis Íslendinga samþykkti 16. júlí árið 2009 að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Sá vilji meiri hlutans kom aftur fram í dag (Gripið fram í.) þegar greidd voru atkvæði um tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, sem komið hefur fram sem foringi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins í þessu máli nú í margar vikur og ég óska henni til hamingju með (VigH: Þakka.) að hafa tekið þá forustu að sér og líka sjálfstæðis- og framsóknarmönnum til hamingju með að eignast verðugan foringja (Gripið fram í.) í þessu máli. En hverjum sem það er nú að þakka, sem er sem sé Vigdísi Hauksdóttur að þakka í dag, er það þannig að þingið tók þá ákvörðun aftur í dag að halda þessum viðræðum áfram. (Gripið fram í.)

Þá spyr ég hv. þingmann: Er það þessi meiri hluti sem hann á við? Eru það þingmenn þessa meiri hluta, þeir sem vildu þessar viðræður fyrir síðustu kosningar sem hann á við? Eru það hugsanlega þeir innan Sjálfstæðisflokksins sem styðja þessa aðild (Forseti hringir.) sem hann á við? Á hann til dæmis við Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur með orðum sínum um fimmtu herdeildina?