140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[22:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var greinilega mjög viðkvæm taug sem ég snerti. Íslendingar eru fullvalda, sjálfstæð þjóð og þegar beiðni um aðildina var samþykkt á Alþingi var það ekki eftir sannfæringu hvers og eins. Ég las áðan ræðustúf, atkvæðaskýringu hæstv. umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur. Það var greinilegt að hún hafði ekki sannfæringu fyrir því að ganga í Evrópusambandið (MÁ: Hún …) en hún sagði samt já þvert á sannfæringu sína, sem kemur fram í atkvæðaskýringunni. Það er spurning hvenær menn tala um að einhverjir nái fram málum með kattasmölun og öðru slíku gegn vilja meiri hluta Alþingis og alveg greinilega gegn vilja þjóðarinnar eftir því sem skoðanakannanir gefa til kynna. Ég hefði gjarnan viljað að þjóðin fengi að segja eitthvað um þetta og þess vegna studdi ég tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur í dag. Ég hefði gjarnan viljað að lýðræðið kæmi í gegn og þjóðin fengi að segja eitthvað um hvort hún vilji yfirleitt ganga í Evrópusambandið, hvort hún vilji ekki draga þessa umsókn til baka. (MÁ: Svaraðu …) Þá kæmi í ljós — ég eftirlæt það hverjum og einum að svara því hverjir skipa fimmtu herdeildina (MÁ: Það eru dylgjur.) og ég hefði viljað að þjóðin greiddi atkvæði um umsóknina. Þá mundi ekki koma atkvæðaskýring eins og ég lýsti áðan og þær eru fleiri sem ég á eftir að lesa.

Það er nefnilega ekki samstaða hjá stjórninni um að ganga í Evrópusambandið og Vinstri grænir hafa velflestir lýst því yfir, allir ráðherrarnir held ég, að Ísland hafi ekkert erindi í Evrópusambandið. Hvar er siðferðið þá?