140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[22:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í annað nátengt umræðuefninu, IPA-styrkjunum. Ég velti fyrir mér, ef þróun Evrópusambandsins er í þessa átt, hratt segir hv. þingmaður og ég er sammála um það — það var rangt hjá mér að tala um hægt og bítandi, það gerist mjög hratt — hvort við séum að flýta því að við afsölum fullveldi okkar með því að taka við fjármunum frá Evrópusambandinu. Gengur þessi kenning upp hjá mér?

Evrópusambandið notar mikla fjármuni í að teikna upp ímynd sína til að fá þjóðir til að horfa jákvæðari augum á þetta batterí. Mér finnst skjóta svolítið skökku við að við drögumst inn í slíkt sjónarspil á kostnað Evrópusambandsins, kannski sem betur fer, því að það greiðir fyrir þetta en einhvern veginn hefur maður það á tilfinningunni að á endanum munum við Íslendingar, ef við göngum inn, sem ég vona að sjálfsögðu að verði ekki, standa skil á þessum styrkjum með einum eða öðrum hætti. Það hefur komið fram í máli þeirra sem við erum að ræða við, Evrópuþingmanna og annarra, að kosturinn við að fá Ísland inn sé sá að Ísland borgi meira en það tekur. Evrópusambandið er orðið þreytt á því að fá þangað inn ríki sem taka bara við fjármunum. Það er nokkuð sem við ættum að hafa í huga þegar við tökum við þessum peningum frá Evrópusambandinu sem við höfum í raun ekki not fyrir.

Það er fyrst og fremst þetta varðandi þjóðríki sem ég spurði um áðan sem mig langaði að spyrja hv. þingmann út í og hvort við séum að láta Evrópusambandið kaupa af okkur fullveldi með því að þiggja þessa styrki.