140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[22:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki alveg tekið undir það að við séum að selja fullveldi eða láta einhvern kaupa það. Ef við slysumst hins vegar til að ganga í Evrópusambandið missum við stóran hluta af fullveldinu. Við mundum ekki gera hagstæða samninga við Kína og við mundum taka upp sameiginlega mynt sem við hefðum engin áhrif á og við mundum taka þátt í öllu því starfi sem þar er án þess að hafa teljandi áhrif vegna þess að einstök ríki hafa ekki mikil áhrif, sérstaklega ekki þau litlu. Stóru ríkin, með Merkel og Sarkozy við stjórnvölinn meðan hann var við völd og nú Hollande, marka stefnuna. Á fundum yfir nótt er búið að marka stefnuna fyrir allt Evrópusambandið. Björgunarsjóður upp á ægilegar upphæðir er ákveðinn af þessum tveimur, það er allt lýðræðið. Lýðræðið er sáralítið í Evrópusambandinu og menn eru farnir að sjá sjálfir hve lýðræðishallinn er mikill.

Ef við tökum þessa styrki og göngum inn verðum við að hafa í huga að ríki vinna bara með hagsmuni í huga. Evrópusambandið hugsar bara í hagsmunum. Það ætlar sér að fá eitthvað fyrir þessa 5 milljarða sem það veitir í styrki hér. Fyrir utan það eru háskólar á Íslandi þátttakendur í styrkjakerfi Evrópusambandsins í gegnum Evrópska efnahagssvæðið, sem við borgum reyndar sjálf fyrir. Auðvitað er Evrópusambandið að hugsa um auðlindir Íslands, stórt land, víðerni, nálægð við norðurskautssvæðið o.s.frv. Evrópusambandið er að hugsa um það. Ríki hugsa um hagsmuni, ríki bera ekki tilfinningar í brjósti og elska hvorki né hata.