140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[22:54]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það eru merkilegir hlutir að gerast í þinginu í dag. Fulltrúar stjórnarflokkanna koma fram fullir sjálfstrausts eins og birtist í andsvari hjá hv. þm. Merði Árnasyni við hv. þm. Pétur H. Blöndal, en hann úrskurðaði mig foringja stjórnarandstöðunnar á þingi og þakka ég hólið úr því að þingmaðurinn stendur þarna í dyragættinni. Ég ætla að segja að einungis Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru orðnir eftir í stjórnarandstöðu á þingi. Það opinberaðist endanlega í dag að Hreyfingin er ekki lengur í stjórnarandstöðu. Hún eru raunverulega hluti af ríkisstjórninni án ráðherra, en litlu verður Vöggur feginn og líklega er þetta eitthvað sem búið er að semja við þessa hv. þingmenn því enn eru rúmir 300 dagar eftir af kjörtímabilinu. Líklega liggja persónulegir hagsmunir þarna að baki vegna þess að tillaga mína um að þjóðin fengi að segja álit sitt á Evrópusambandsumsókninni hlaut ekki náð fyrir augum þessara þriggja þingmanna þrátt fyrir að þeir hefðu staðið úti á Austurvelli í hinni svokölluðu búsáhaldabyltingu, berjandi tunnur, potta og pönnur og krafist beins lýðræðis og að öll mál færu til þjóðarinnar. Svona er Ísland í dag, virðulegi forseti, á vordögum árið 2012.

Sumir hafa litið á atkvæðagreiðsluna í dag sem mikinn sigur fyrir Evrópusambandsaðildarsinna. Það er mikill misskilningur. Ég fór yfir það í ræðu minni í dag, og við erum að ræða þessa IPA-styrki sem Evrópusambandið stendur að og ætlar að sturta inn í landið 5 þús. milljónum íslenskra króna, að ríkisstjórnarflokkarnir og þeir sem greiddu atkvæði á móti tillögu minni í dag virðast ekki átta sig á því að það er annar meiri hluti í þinginu en fyrir utan þinghúsið því að á milli 60 til 65% landsmanna hafna aðildarferlinu og því að ganga í Evrópusambandið. En ég sagði jafnframt í dag að þó að maður tapi einni orrustu ætlar maður að vinna stríðið. Stríðið verður háð í næstu alþingiskosningum og þá skulum við sjá hvað kemur upp úr atkvæðakössunum því auðvitað gengur þetta ekki svona til lengdar þrátt fyrir að ríkisstjórnin ætli að hanga áfram þessa rúmu 300 daga sem eftir eru.

Ég kíkti aðeins á netmiðlana rétt áður en ég fór í ræðustól og sá að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir er titluð sem hvorki meira né minna en kyndilberi jafnréttisbaráttunnar í dómsmáli í dag. Það var enginn annar en sjálfur ríkislögmaður sem sló þessu fram henni til hjálpar í því dómsmáli sem embættismaðurinn þarf að reka fyrir dómstólum vegna brota hæstv. forsætisráðherra á jafnréttislögum. Það minnir mig á að þetta er ekki eina dómsmálið sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórn hefur staðið frammi fyrir síðan hún tók við valdataumunum. Rétt er að minnast á afbrot ríkisstjórnarinnar varðandi stjórnlagaþingskosninguna. Hún var úrskurðuð ógild eins og allir muna af sjálfum fjölskipuðum Hæstarétti. Ríkisstjórnin lét það sem vind um eyrun þjóta. Í dag var verið að samþykkja að setja gervitillögur í þjóðaratkvæðagreiðslu en tillagan sem skiptir einhverju máli fyrir íslenskt þjóðarbú var felld.

Ég verð að segja að ég sárvorkenni ríkislögmanni að þurfa að standa í að verja hæstv. forsætisráðherra, en í málsskjölum dómsins má í raun lesa lýsingu á verklagi þessarar ríkisstjórnar. Í frétt um málið á mbl.is segir, með leyfi forseta:

„Eins og komið hefur fram var forsætisráðuneytið, og þar með ráðherra, ósammála niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála.“ — Skrýtið, hún var dæmd fyrir það að brjóta jafnréttislög og var náttúrlega að taka til varna. — „Ráðherra skipaði sérstakan stýrihóp til að fara yfir niðurstöðuna og ákvað eftir að hann skilaði áliti sínu að bjóða sættir í málinu. Ríkislögmaður sagði hins vegar við aðalmeðferðina í morgun, að það hefði verið gegn sannfæringu ráðherrans sem hafi verið fullviss um kynferði hafi ekki ráðið för við skipun í stöðuna.“

Eru þetta ekki kunnugleg vinnubrögð, hv. þingmenn? Ó jú, fyrst að vera ósammála, fara fram með mál í stríði, skipa nefnd og bjóða sættir. En þegar sú kona sem hæstv. forsætisráðherra braut á var ekki sátt við þær sættir sem boðnar voru, mig minnir að henni hafi verið boðnar 500 þús. kr. til að höfða ekki mál og að sjálfsögðu hafnaði hún því, kemur ríkislögmaður fram og segir að hæstv. forsætisráðherra hafi farið gegn sannfæringu sinni við að bjóða sættir. Í þessu dómsmáli kemur fram hvernig hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórn vinna, með handarbökunum, virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn vinnur með handarbökunum og er hafin yfir landslög. Þessu vil ég halda til haga þar til þetta dómsmál hefur gengið til enda.

Öllu alvarlegra er það mál sem við höfum hér til umræðu, fram á kvöld að venju því hér eru ekki virt þau tímamörk sem gilda á vinnumarkaði. Hér er talað á nóttunni, sérstaklega um þau erfiðu mál sem þola ekki dagsljósið eins og einmitt þessa tillögu til þingsályktunar um að Alþingi samþykki rammasamning ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um fjárhagsaðstoð ESB við Ísland í umsóknarferlinu. Þessi tillaga sýnir að nú er hafin bein aðlögun að Evrópusambandinu. Bæði þing og þjóð hafa verið blekkt og sagður hálfsannleikur í þessu máli öllu eftir að umsóknin fór inn 2009 og talað var um að væri ekki um neina aðlögun að ræða. Nú með framlagningu þessarar þingsályktunartillögu hafa leiktjöldin fallið vegna þess að hér er um hreina aðlögun að ræða. Það fé sem á að streyma til landsins í formi þessara styrkja á allt að fara í að byggja upp stjórnsýsluna hér á landi þannig að hún verði sem best undir það búin að við Íslendingar, og Ísland sjálft sem þjóðríki, geti orðið aðilar að Evrópusambandinu.

Þeir sem hafa kynnt sér Evrópumál vita vel að þegar Noregur hafnaði Evrópusambandsaðildinni í seinna sinnið 1994 var ekki um neina aðlögun að ræða. Það dæmi var mjög skýrt vegna þess að þá höfðu náðst samningar. Þeir samningar voru lagðir fram af minni hluta ríkisstjórnarinnar, eins og gerist hér á landi vegna þess að Vinstri grænir hafa á stefnuskrá sinni að ganga ekki í Evrópusambandið, en vilji þingsins hefur verið neyddur fram. Svo fór sem fór í Noregi, Norðmenn eru skynsamir, þeir eru ríkir af náttúruauðlindum eins og við Íslendingar og að sjálfsögðu höfnuðu þeir því í þjóðaratkvæðagreiðslu að ganga ESB á hönd. Það ætlum við Íslendingar líka að gera. Þess vegna verðum við þingmenn að standa okkur á þingi og láta þetta mál ekki fara í gegn vegna þess að ef það verður samþykkt er það ákveðin viðurkenning á því að Íslendingar séu búnir að hefja aðlögunarferli. En miðað við atkvæðagreiðsluna í morgun eru líklega meiri líkur á því en minni að málið fari í gegn.

Það er sérstaklega athyglisvert að þessi samningur var undirritaður síðastliðið sumar. Sendimaður íslenska ríkisins skrifar undir hann á móti framkvæmdastjórninni úti í Brussel. Samningurinn er líklega búinn að liggja inni í utanríkisráðuneyti síðan og nú fyrst, ári síðar, er hann lagður fram á vorþingi. Nú á að hasta málinu í gegnum þingið í skjóli nætur en samningurinn hefur legið eins og ég segi í heilt ár í utanríkisráðuneytinu. En hæstv. utanríkisráðherra hefur líklega ekki treyst sér leggja fram málið fyrr vegna þess að það var aldrei viðurkennt að um beina aðlögun væri að ræða. En nú eru kosningar farnar að nálgast og ef til vill kominn þrýstingur frá Evrópusambandinu um að við tökum við þessum mútugreiðslum, eins og hv. þm. Jón Bjarnason kallar þessa peninga, og þá var kannski knýjandi þörf hjá hæstv. utanríkisráðherra að reyna að koma málinu í gegnum þingið.

Ég gagnrýndi það mjög í umræðum fyrir helgi að málin voru tekin inn í rangri röð. Fyrst þarf þingið að samþykkja þessa þingsályktunartillögu til að aflétta stjórnskipulegri stöðu samningsins áður en rætt er um skattundanþágufrumvarpið fyrir Evrópuelítuna. Ég ætla ekki að halda aftur þá ræðu sem ég hélt um skatta- og tollafrumvarpið sem gefur þegnum ESB og verktökum í Evrópusambandinu mikið forskot á Íslendinga vegna þess að það á ekki að borga skatta, virðisaukaskatt eða tolla af greiðslum þeirra ef þeir inna þessi verkefni af hendi. Það brýtur að mínu mati harkalega gegn EES-samningnum en svona vinnur Evrópusambandið. Þessar undanþágur eiga ekkert skylt við sendimenn erlendra ríkja eða Vínarsamninginn þó að Evrópusambandið hangi hér aftan í bílnum í utanríkisþjónustunni og ætlar að láta þær reglur gilda um þegna sína. Þetta er mjög ógeðfellt, frú forseti, það er ekki hægt að segja annað.

Til að varpa ljósi á hvað þetta mál er byggt á veikum grunni var það tekið út úr utanríkismálanefnd þegar hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir var ekki viðstödd. Skyndilega var málið rifið út úr utanríkismálanefnd. Það er gaman að tala um það í dag, úr því að stækkunarstjóri Evrópusambandsins er hér á landi, að ekki náðist meiri hluti í utanríkismálanefnd í málinu. Það voru forföll í nefndinni þannig að það sem á að heita meirihlutaálit með þessari þingsályktunartillögu er kallað nefndarálit frá 1. minni hluta utanríkismálanefndar. Það er mjög merkilegt í svo veigamiklu máli eins og þessu. Tækifærið var gripið og málið rifið út og þeir sem eru á nefndaráliti 1. minni hluta eru hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson, Helgi Hjörvar, Lúðvík Geirsson og Róbert Marshall. Málið var tekið út á fjórum atkvæðum en til að hægt sé að mynda meiri hluta í þingnefndum þarf fimm þingmenn.

Annar minni hluti skilaði einnig nefndaráliti og í honum sitja hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson. Þarna kom strax í ljós mikill ágreiningur um málið í sjálfri utanríkismálanefnd. Síðan þetta var hefur myndast nýr meiri hluti í hv. utanríkismálanefnd vegna þess að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir er gengin til liðs við stjórnarandstöðuna í utanríkismálanefnd. Sem betur fer, virðulegi forseti, hefur Hreyfingin einungis áheyrnarfulltrúa í utanríkismálanefnd þannig að hún getur ekki með kosningasvikum stutt ríkisstjórnina þar. En ég held að það sé athyglisvert og umhugsunarefni fyrir stækkunarstjórann að Ísland sem umsóknarríki að Evrópusambandinu skuli ekki vera með meiri hluta í utanríkismálanefnd sjálfri fyrir Evrópusambandsumsókninni. Það kom líka í ljós í atkvæðagreiðslunni í morgun að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir greiddi atkvæði með tillögu minni um að tímabært væri að setja spurninguna um hvort halda eigi umsóknarferlinu áfram í þjóðaratkvæðagreiðslu. En lýðræðisástin hjá vinstri flokkunum nær nú einungis til gæluverkefna þeirra, gæluverkefna eins og stjórnlagaráðs sem nú hefur kostað yfir 1.000 millj. kr. Ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, að inni í þeirri tölu er ekki áætlaður kostnaður við þjóðaratkvæðagreiðsluna sem á að fara fram fyrir októberlok, en hann er upp á 250–300 millj. kr. Það var verið að ræða það í dag að þessi ríkisstjórn stendur fyrir kosningum á einu ári fyrir tæpan milljarð. Í sumar eru forsetakosningar, fyrir októberlok á að vera þjóðaratkvæðagreiðsla og svo verða þingkosningar í lok apríl eða byrjun maí á næsta ári. Ja, vel er í lagt, það er greinilega hægt að eyða peningunum. Þarna er ein þjóðaratkvæðagreiðsla algerlega óþörf. Stjórnarmeirihlutinn gat ekki komið þessu stjórnlagaráðsmáli í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum eins og þeir ætluðu sér. Það lá fullbúið frumvarp frá mér í þinginu sem ríkisstjórnin gat tekið á dagskrá þar sem var kveðið á um styttra tímamark. En það þurfti að búa til þennan sirkus um að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn vildu ekki breyta stjórnarskránni. Því fór sem fór og þá var bara fundinn nýr dagur og skrifaður gúmmítékki upp á 300 millj. kr. beint út úr ríkissjóði.

Yfir þennan samning þarf að fara í mörgum þingræðum vegna þess að gildistaka hans er bundin því ákvæði að hann öðlist ekki gildi fyrr en á þeim degi sem samningsaðilar tilkynna hvor öðrum um að uppfyllt hafi verið öll stjórnskipuleg skilyrði til að hrinda honum í framkvæmd. Þarna er átt við að samningurinn hafi fengið umræðu á Alþingi, samþykkt og undirskrift forsetans. Nú er ég aðeins að vísa til tilfinninga forsetans varðandi Evrópusambandið. Verði þetta mál knúið í gegnum þingið höfum við alltaf þann stjórnskipulega fyrirvara að forseti þarf að skrifa undir lög til að þau öðlist gildi, og þetta er milliríkjasamningur.

Það sem mér finnst verst og mest niðurlægjandi fyrir okkur sem ríki er það sem kemur fram í inngangsorðum samningsins. Ísland kemur fram í samningi þessum sem aðstoðarþegi. Þetta er afar niðurlægjandi. Hvers vegna er ekki hægt að tala um okkur sem stolta íslenska þjóð eða setja hreinlega landið okkar þarna inn? Nei, í gegnum allan samninginn erum við kölluð aðstoðarþegar Evrópusambandsins. Það er til skammar hvernig stjórnsýslan hefur farið með stolt okkar bæði í þessum samningi og Icesave-samningnum. Það minnir mig á að eins og í Icesave-samningnum hefur dómsvaldið í þessum samningi verið flutt úr landi. Hér stendur að rísi upp deilur út af samningnum skuli styrkþeginn, sem sagt við, fara fram í málinu og verja hagsmuni Evrópusambandsins gagnvart þeim er sækir málið. Verði það Íslendingur eða íslenskt verktakafyrirtæki sem sættir sig ekki við það ójafnræði sem er verið að innleiða, að íslenski aðilinn þurfi að borga skatta, tekjur og gjöld en ekki aðili frá Evrópusambandinu, og ætlar að láta reyna á það fyrir dómstólum, er beinlínis búið að afsala dómsvaldinu og Ísland þarf í raun að fara gegn eigin þegni vegna þess að búið er að framselja dómsvaldið til Evrópusambandsins. Þetta er enn eitt hneykslið en vel kunnuglegt úr Icesave-samningunum þegar hæstv. fjármálaráðherra lagði höfuð sitt að veði fyrir því að þetta væru snilldarsamningar og niðurstaðan glæsileg og hvaðeina. Sem betur fer greip forsetinn tvisvar inn í þá atburðarás og efndi til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem ríkisstjórnarflokkarnir voru á móti. Í dag ræðum við um að þessi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram, en ríkisstjórnin taldi sig óbundna af þjóðaratkvæðagreiðslu í bæði skiptin. Hvað gerði þáverandi hæstv. fjármálaráðherra í fyrra skiptið þegar Icesave-samningurinn var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu 98:2? Jú, hann fór og samdi upp á nýtt og kom bara með annan samning. Þessi ríkisstjórn á eftir að verða dæmd af verkum sínum bæði sögulega séð og jafnvel fyrir dómstólum.

Ég ætlaði, frú forseti, að fara í þann kafla sem fjallar um almennar reglur um fjárhagslega aðstoð en ég sé að tíminn er að hlaupa frá mér. Ég bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá svo ég geti farið almennilega yfir það. Til að rökstyðja það sem ég sagði í upphafi um að þetta væri bein aðlögun sem sannaðist í samningstextanum, ætla ég að grípa niður í eina af fyrstu greinum samningsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Aðstoð skal vera í fullu samræmi við meginreglurnar um samfellu, heildstæðni, samræmingu, samvinnu og samþjöppun.“

Er hægt að hafa þetta skýrara? Samfella, heildstæðni, samræming, samvinna og samþjöppun. Evrópusambandið er að þjappa sér saman í átt að einu sambandsríki. Þarna er verið að skuldbinda Ísland til að taka þátt í þessu. Þetta er raunverulega ástæðan fyrir því að við eigum að taka við þessum styrkjum, til að undirbúa stjórnsýslustofnanir okkar fyrir þessa samþjöppun, heildstæðni og samræmingu. Hvað er það annað en aðlögun? Við erum ekki börn. Við kunnum að lesa og hvernig ætlar hæstv. utanríkisráðherra að koma sér út úr þeim hálfsannleika sem hann hefur haldið fram í þrjú ár fyrir þingi og þjóð og í innlendum fjölmiðlum að ekki sé um aðlögun að Evrópusambandinu að ræða? Ég spyr mig að því, og ég boða mjög fjöruga þingdaga fram undan og ekki skal standa á mér að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um þetta og hvernig hann getur farið með blekkingar dag eftir dag í fjölmiðlum og heldur að allir trúi sér.