140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[23:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar spurningar. Ég get ekki sett mig inn í hugaróra Evrópusambandsins en vegna þess að spurt er um markmið ESB með því að gera þennan rammasamning er það ef til vill það að koma okkur inn í Evrópusambandið. Ég hef farið yfir það í mörgum ræðum síðan ég tók sæti á Alþingi að Evrópusambandið á ekki auðlindir. Það þarf að stækka, það er orðið orkusnautt, það vantar orðið ferskvatn í mörgum ríkjum sambandsins. Það vill setjast í heimskautaráðið og vill komast inn á norðurslóðir. Það er markmiðið. Ég er alveg viss um að það á eftir að leggja mjög mikið á sig í köflunum um landbúnaðinn og sjávarútvegsmálin bara til að búa til glópagull svo landsmenn samþykki þetta. Hagsmunir Evrópusambandsins eru langtum meiri að komast hingað inn en hagsmunir okkar að ganga í Evrópusambandið. Það hlýtur að vera markmiðið.

En varðandi þennan sýnileika er það mjög ógeðfellt sem kemur til dæmis fram í 10. gr. sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir las upp úr. Þetta er beinlínis gert til að upplýsa borgarana og þá sem aðstoðina þiggja, þ.e. að varpa ljósi á hlutverk ESB og tryggja gagnsæi. Krafa ESB er að gera ESB sýnilegt hér á landi. Ég held samt að eftir því sem ESB kynnir sig meira hér á landi og stækkunarstjórinn og sendiherra Evrópusambandsins hér á landi og Evrópustofa auglýsa meira hafi það neikvæðari áhrif, sem betur fer. Gleymum því ekki að Íslendingar eru afar vel upplýstir. Internetnotkun hér er um 90%. Við sækjum okkur upplýsingar út í heim þannig að það þýðir ekkert að mata íslensku þjóðina. Það var kannski hægt þegar ESB var að ryðjast inn í austantjaldslöndin en það er ekki hægt á Íslandi.