140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[23:19]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta ágæta svar við andsvari mínu. Hún fór yfir sýn sína á það hvað Evrópusambandið vildi með þessum samningi.

Það hefur mikið verið rökrætt hvort við værum í aðlögun að Evrópusambandinu. Mín skoðun er sú að þetta mál sýni svart á hvítu að ríkisstjórn Íslands hefur skrifað undir slíkan samning (Gripið fram í.) og það birtist meðal annars í 3. gr. þessa samnings sem heitir „Markmið“. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Til að stuðla að samvinnu sín á milli og undirbúa aðstoðarþegann í áföngum fyrir staðla og stefnumið Evrópusambandsins, þar á meðal eftir því sem við á réttarreglur þess, með aðild í huga …“

Hvað getur þetta verið annað en að laga réttarreglur aðstoðarþegans að réttarreglum Evrópusambandsins? Ég get bara ekki skilið þessa grundvallargrein samningsins á annan hátt. Ef hv. þingmaður kann einhverja aðra útskýringu á þessu orðalagi vildi ég gjarnan heyra hana. Mér finnst þetta standa algjörlega skýrt svart á hvítu en kannski hefur eitthvað annað komið fram í nefndinni. Það kom alls ekki fram í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar sem mælti fyrir nefndaráliti 1. minni hluta að það væri aðlögun í gangi. Samt les maður hér, ekki bara úr þessari grein samningsins heldur nokkrum öðrum greinum, að tilgangur og markmið þessa samnings sé beinlínis að laga Ísland að ESB.