140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[23:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir hans ræðu. Það er afar mikilvægt innlegg í þessa umræðu þegar hann sviptir tjöldunum frá svo að það sést hvernig Evrópusambandið vinnur. Það getur hann gert í ljósi þess að hann sat í ríkisstjórn á þeim umbrotatímum þegar búið var að skrifa undir samninginn og hann sjálfur neitaði að taka við styrkjunum. Það er líklega þess vegna sem þessi þingsályktunartillaga kom ekki fram í þinginu fyrr en búið var að koma hv. þm. Jóni Bjarnasyni með bolabrögðum út úr ríkisstjórn.

Það vakti meira að segja athygli hjá Evrópusambandinu, mig minnir að þeir hafi sérstaklega fagnað því í bókun, að búið væri að ryðja eina Evrópuandstæðingnum í ríkisstjórninni úr vegi og kominn væri nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Og hver skyldi það hafa verið? Jú, mesti Evrópusinninn í Vinstri grænum, hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon. Þessi braut er því þyrnum stráð og ef ekki blóðug að koma landsmönnum inn í ESB.

Hv. þingmaður fór yfir það í ræðu sinni að Evrópusambandið mundi aldrei taka við skilyrtri umsókn. Nú var þeim blekkingaleik haldið á lofti að skilyrði okkar framsóknarmanna hvað það varðar að leggja inn umsókn að Evrópusambandinu væri að finna í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem hér var samþykkt. Nú áttar maður sig á því að skilyrði okkar framsóknarmanna var ekki hægt að setja inn í tillöguna og ég lagði fram breytingartillögu um það hér í þinginu þegar umsóknin var til umræðu að skilyrðin færu inn í þingsályktunartillöguna sjálfa og yrðu þar hluti af textanum. En blekkingin fór af stað og þetta var sett í greinargerð. (Forseti hringir.)

Metur þingmaðurinn það svo að skilyrðin sem voru sett af Framsóknarflokknum (Forseti hringir.) standi í þingsályktunartillögunni?