140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[23:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka góðar upplýsingar. Hv. þm. Jón Bjarnason heldur því beinlínis fram og bendir á að ríkisstjórnin er komin langt út fyrir umboð sitt. Ég bað þó bara um að þetta færi í þjóðaratkvæðagreiðslu í dag, að þjóðin kæmi að því að segja hug sinn. Ég hafði ekki hugmyndaflug í að biðja um að umsóknin yrði tekin hér aftur inn í þingið til umræðu. En þetta eru gagnlegar upplýsingar, mjög slæmt að þær skuli vera að koma fram klukkan tólf á miðnætti þennan dag því að þetta þyrfti svo sannarlega að komast til alþjóðar og vonandi gerir það það.

Varðandi þau orð sem þingmaðurinn hefur um að umsóknin sé algjörlega á hendi ESB og í umboði ESB og ekkert annað en ESB ráði för, hvers vegna er þá verið að halda þeim blekkingaleik stanslaust fram, hefur verið gert í þrjú ár, að um einhverjar viðræður sé að ræða eða samninga? (Forseti hringir.) Hver er skýring þingmannsins á því?