140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[23:59]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það séu bara miklir veikleikar sem birtast í umræðunni af hálfu þeirra sem halda því fram.

Það er heiðarlegt að segja að við sækjum um aðild að Evrópusambandinu og ætlum að komast þar inn, sé þess nokkur kostur, auðvitað með þeim fyrirvara að þjóðin samþykki það þegar samningsafstaða er klár. Það er heiðarlegt þó svo að ég sé ekki sammála því. En að halda því fram að hægt sé að vera í samningaferli sem slíku þegar Evrópusambandið býður bara upp á aðildar- og aðlögunarferli er aftur á móti ekki heiðarlegt. Það er það sem er kannski vandinn í þessari umræðu um aðild að Evrópusambandinu, það er þessi feimni við að tala um hlutina og nefna þá réttum nöfnum, hvort sem við erum sammála þeim eða ekki. (Forseti hringir.) Ég tek undir það með hv. þingmanni að það skortir í þessari umræðu og er mjög mikilvægt að það komi fram.