140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þau svör sem hann veitti við spurningum mínum áðan, þau eru algjörlega fullnægjandi. Ég fagna því líka að hv. þingmaður vísi því á bug sem fólst í aðdróttunum um að hann hafi dregið lappirnar og unnið með þeim hætti í sambandi við Evrópusambandið að fyrir þeirra hluta sakir væri málið ekki orðið efnislega skýrara en raun bæri vitni í dag. Mér finnst mjög mikilvægt að það liggi þá fyrir af hálfu hv. þingmanns því að hann má auðvitað gerst vita sem fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Annað sem ég vil spyrja hv. þingmann um sem kom aðeins fram í ræðum áðan er hvort ríkisstjórnin sé að hans mati komin út fyrir það umboð sem Alþingi gaf. Við vitum að Alþingi gaf tiltekið umboð og það byggðist á meirihlutaáliti utanríkismálanefndar Alþingis og hefur verið mjög vísað til þess þegar við höfum rætt þessi mál. Við sjáum að málið er á hraðferð og við tókum eftir því að einn þingmanna Samfylkingarinnar taldi eftir atkvæðagreiðsluna í dag að nú væri hægt fyrst að fara að gefa almennilega í, (Forseti hringir.) setja í fluggírinn í viðræðunum við Evrópusambandið. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að ríkisstjórnin sé núna komin út fyrir það umboð (Forseti hringir.) sem Alþingi gaf á sínum tíma.