140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:13]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður rakti vel sína afstöðu til þessa máls, hann sagði að afstaða hans hefði legið klár fyrir á sínum tíma og að aldrei hefði komið til greina að styðja Evrópusambandsumsókn. Ég rakti áðan í andsvari mínu þær hótanir sem hæstv. forsætisráðherra beitti meðal annars samþingmenn sína og einstaka stjórnarliða. Mér leikur forvitni á að vita hvort hv. þingmaður hafi fundið fyrir einhverjum slíkum hótunum á sínum tíma frá hæstv. forsætisráðherra eða forustumönnum ríkisstjórnarinnar.

Mér er vel kunnugt um að hv. þingmaður bognaði aldrei undan slíku en það væri forvitnilegt að vita hvort hv. þingmaður man eftir þeim umræðum sem urðu um þetta mál, hvort hann hafi skynjað eitthvað slíkt í aðdraganda þeirrar atkvæðagreiðslu sem þá var haldin og hvort hann telji að eitthvað slíkt hafi verið uppi á teningnum í aðdraganda þeirrar atkvæðagreiðslu sem fram fór í dag.