140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:14]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það er alveg hárrétt að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna létu það mjög skýrt í ljósi á þeim tíma þegar umsóknin var send að það væri þeim miklu betur þóknanlegt að greidd væru atkvæði eins og formenn ríkisstjórnarflokkanna vildu (VigH: Hneyksli.) og komu því alveg skýrt á framfæri, (Gripið fram í.) líka við þann sem hér stendur. En ég get fullvissað hv. þingmann um að ég sagði líka að ef menn vildu hóta einhverju í þeim efnum væri það vonlaust gagnvart mér.

Mér er ekki kunnugt um neitt slíkt í atkvæðagreiðslunni í dag en ég tel að þinginu beri skylda til þess að taka nú þessa Evrópusambandsumsókn virkilega til málefnalegrar endurskoðunar. Það var ekki þjóðin sem bað um að þessi umsókn væri send, hún var send á ábyrgð Alþingis og ríkisstjórnarinnar. (Forseti hringir.) Mér finnst að Alþingi og ríkisstjórn beri ábyrgð á því að hún sé þá afturkölluð og að þjóðin verði spurð áður en haldið er aftur af stað út í þá vegferð.