140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Allt á sitt upphaf einhvers staðar og þessir IPA-styrkir sem við ræðum núna eiga auðvitað upphaf sitt í því að illu heilli var tekin sú ákvörðun um mitt ár 2009 að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þá var sagt að þeirri atkvæðagreiðslu hefði verið náð fram undir miklum hótunum gagnvart einstökum hv. þingmönnum stjórnarliðsins þar sem þeim var gert ljóst að ef ekki yrði tryggður meiri hluti fyrir því máli gæti líf ríkisstjórnarinnar verið í hættu.

Ég tók eftir því í dag að ekkert slíkt virtist vera á seyði. Núna er, eins og ég nefndi áðan, ekki hægt að sjá mikinn mun á stjórnarflokkunum þegar kemur að Evrópusambandinu. Menn virðast vera býsna samstiga, búnir að æfa vel Evrópusambandsdansinn og verður aldrei á í messunni þegar sá dans er stiginn. Því er ekki að undra að þetta mál, IPA-styrkjamálið, sé borið fram af ríkisstjórninni þegar svo er komið að búið er að tryggja það að þessu Evrópusambandsmáli verði rennt ljúflega niður af báðum stjórnarflokkunum og hvorugan þarf að hvetja, báðir hafa sömu hugsjónirnar um að þessum málum verði haldið áfram.

Það er athyglisvert sem kom fram í andsvörum hv. þm. Jóns Bjarnasonar þegar ég spurði hann aðeins út í þessi mál áðan. Þá sagði hv. þingmaður að með móttöku IPA-styrkjanna væri ríkisstjórnin í raun komin út fyrir það umboð sem Alþingi veitti á miðju ári 2009. Eins og við munum var ákvörðunin studd með ítarlegu nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar þar sem tíunduð voru þau skilyrði sem leggja átti til grundvallar, sem mætti kannski kalla samningsmarkmið, og frá þeim skilyrðum væri ekki hægt að víkja nema koma með málið að nýju til Alþingis til meðhöndlunar.

Nú hefur það sem sagt gerst og hv. þm. Jón Bjarnason hefur staðfest það að með því að veita móttöku þessum IPA-styrkjum séum við í rauninni komin fram yfir það sem þingsályktunartillagan heimilar. Hv. þingmaður sagði jafnframt að það væru fleiri dæmi sem mætti nefna þessu til stuðnings.

Ég er sammála hv. þingmanni um það að sú ákvörðun sem nú er verið að taka um IPA-styrkina markar heilmikil tímamót og hlýtur að kalla á að við ræðum þessi mál almennt.

Það er líka rétt, sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði áðan, að fram undan er bara aðlögunin. Við höfum farið yfir þessi mál, annars vegar Ísland og hins vegar Evrópusambandsþjóðirnar, þar sem menn hafa borið saman bækur sínar, borið saman löggjöfina á viðeigandi sviðum. Ég hef stundum setið í utanríkismálanefnd og mér er kunnugt um hvernig þessi mál fara fram. Menn kalla það að opna kafla sína og loka þeim síðan ef ekki þarf að hyggja sérstaklega að einstökum þáttum. Fram undan er því bara aðlögun og IPA-styrkirnir eru snar þáttur í henni. Styrkirnir eru til þess fallnir og til þess gerðir að tryggja það að aðildarumsóknarríki eins og Ísland eða önnur umsóknarríki geti breytt stjórnkerfi sínu frá því sem var ákveðið af þjóðþingum þessara ríkja í átt að því sem Evrópusambandið telur að þurfi til að ríkið sé tækt í Evrópusambandið.

Við hv. þm. Jón Bjarnason erum ágætlega kunnugir í landbúnaðarmálum og er okkur því ljóst að grundvallarmunur er t.d. á öllum landbúnaðarstuðningi okkar og landbúnaðarstuðningi Evrópusambandsins. Ef við ætlum að ganga í Evrópusambandið þarf frá fyrsta degi að vera búið að taka ákvarðanir og undirbúa hluti þannig að hægt sé að vinna á Íslandi í samræmi við þær meginreglur sem Evrópusambandið hefur sett. Málið er ekkert flóknara en svo.

IPA-styrkirnir hafa þann yfirlýsta tilgang að auðvelda ríkjum sem eru með ólíkan stjórnsýslugrunn að breyta honum þannig að þau geti farið að vinna eins og fullgild ríki í Evrópusambandinu. Þetta er aðlögunin. Með þessu er verið að stíga skrefin smám saman eitt og eitt. Síðan verður auðvitað erfiðara að snúa til baka ef menn fara t.d. að hiksta á því að ganga í Evrópusambandið.

Tímasetningarnar í þessu máli vekja athygli. Evrópusambandsumsóknin var samþykkt um mitt ár 2009 og um mitt ár 2011, þ.e. 8. júlí í fyrra, var skrifað undir samning við Evrópusambandið fyrir hönd Íslands sem fól í sér möguleikana á því að kalla eftir þessum IPA-styrkjum. Það var gert, eins og við vitum, með því að búa til þennan samning. Hann kallar hins vegar á lagabreytingu, að Alþingi taki afstöðu til samningsins. Það er í fyrsta lagi gert með þeirri þingsályktunartillögu sem verið er að ræða núna þar sem í raun er verið að ramma þetta inn í þingsályktunartillögu sem Alþingi tekur afstöðu til. Í öðru lagi þarf að gera breytingar á lögum vegna þess að IPA-styrkirnir fela í sér mjög mikið frávik frá því sem gerist almennt um styrki af þessum toga, þ.e. ef ekki er kveðið á um annað í lögum eru styrkir skattskyldir. Eins og kemur fram í öllum þeim gögnum sem fyrir okkur hafa verið lögð, í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra frá því fyrr á þessu þingi, í þingsályktunartillögunni og 1. minnihlutaáliti utanríkismálanefndar, þarf að gera þessar breytingar til að hægt sé að fá þessa styrki.

Ef við skoðum þessa IPA-styrki þá eru þeir einhvers konar tæki fyrir for-aðlögunarferli eins og það er kallað í hrárri þýðingu. Um er að ræða tvenns konar áætlanir. Annars vegar það sem menn hafa kallað landsáætlun sem er landsáætlun fyrir einstök ríki, Ísland fær sína landsáætlun, og hins vegar eru til viðbótar fjölþegaáætlanir sem byggja á öðru og eru ekki landsáætlanir í sjálfu sér heldur annars konar áætlanir sem líka eru lagðar til grundvallar og fela í sér fjárhagslegan stuðning til eins og annars sem er í rauninni tíundað í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra frá því fyrr á þessu ári. Þetta eru ekki neinar smáupphæðir. Ef við skoðum bara landsáætlunina sem var undirrituð í fyrra fyrir Ísland þá er gert ráð fyrir því að á þremur árum verði veittir alls um 5 milljarðar kr. til margs konar stuðningsaðgerða sem hafa þann yfirlýsta tilgang að aðlaga stjórnsýslu okkar að því sem er í Evrópusambandinu, en eins og menn hafa nefnt í umræðunni þá er Evrópusambandið ekki að ganga í Ísland heldur ætlar Ísland að ganga í Evrópusambandið ef vilji meiri hluta Alþingis ræður. Þess vegna þarf að breyta mörgu í stjórnsýslulegum strúktúr okkar og hugsunin er að setja 5 milljarða í alls konar undirbúning á þessum þremur árum.

Forsenda Evrópusambandsins fyrir því að Ísland geti fengið þessa styrki er að slík aðstoð upp á 5 milljarða kr. renni óskipt til þeirra verkefna sem henni er ætlað að styðja. Þar af leiðandi er ekki gert ráð fyrir því að IPA-aðstoðin renni að nokkru leyti í opinber gjöld. Það er sem sagt verið að undanþiggja þessa styrki frá hvers konar skattlagningu, ekki bara venjulegum sköttum heldur verður allur innflutningur á grundvelli þessara samninga undanþeginn tollum, aðflutningsgjöldum, virðisaukaskatti og öðrum sköttum og gjöldum. Með öðrum orðum er alveg sama hvaða nafni slík gjöld eða skattar nefnast, allt verður undanþegið skattlagningu. Það má því segja að í raun felist í þessu óbeint ríkisframlag af hálfu Íslendinga vegna þess að undanþága frá sköttum er óbeinn ríkisstuðningur. Ef þessum lögum yrði ekki breytt fengi ríkið hluta af veittum styrkjum beint í sínar hendur. Þetta eru ekki bara styrkir til ríkiskerfisins, þetta eru líka styrkir utan þess og slíkir aðilar væru þá klárlega skattskyldir. Það er sem sagt verið að hverfa frá því þannig að íslenska ríkið verður af, ef við getum orðað það svo, sköttum sem ella yrðu innheimtir að óbreyttum lögum.

Frá sjónarhóli Evrópusambandsins getur maður kannski sagt að sumt af því sem þarna er verið að leggja til sé mjög skiljanlegt. Af hverju segi ég það? Það er vegna þess að hinn yfirlýsti tilgangur er aðlögun, hinn yfirlýsti tilgangur er að breyta stjórnsýsluuppbyggingunni, stofnanaumhverfinu. Það kostar peninga og Evrópusambandið leggur til hliðar fjármuni fyrir ný ríki og aðildarríki til að geta staðið straum af því. Maður skilur það út af fyrir sig. Vilji Evrópusambandsins er að hjálpa umsóknarríkjum til að breyta kerfi sínu þannig að það kerfi sem þessi lönd búa við, þar á meðal Ísland, sé algerlega í samræmi við stofnanauppbyggingu Evrópusambandsins. Það er það sem ég á við þegar ég segi: Maður getur út af fyrir sig skilið röksemdafærsluna frá sjónarhóli Evrópusambandsins fyrir því að Evrópusambandið vill tryggja að þetta gangi allt saman vel fyrir sig þannig að ekki verði farin fýluferð þegar búið er að gera samning við okkur og menn standi þá ekki frammi fyrir því að landið eða samfélagið sé ekki undir það búið stjórnsýslulega séð að ganga í Evrópusambandið. Sumt af því sem maður sér í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra lýtur klárlega að þessu. Ýmislegt í sambandi við reglugerðina um matvælaöryggi, ýmislegt sem maður sér í sambandi við fjármálauppbyggingu og þess háttar er allt í samræmi við það sem um er að ræða, þ.e. Evrópusambandið vill gera tilteknar breytingar.

Hitt finnst mér miklu óskiljanlegra, að inn í þetta skuli vera blandað alls konar öðrum styrkjum til hinna aðskiljanlegustu hluta sem margir hverjir eru ágætir. Í dag fóru fram athyglisverðar umræður undir andsvarafyrirkomulaginu þar sem saumað var að þingmönnum úr einstökum kjördæmum og sagt: Er þingmaðurinn virkilega á móti því að háskólasamfélagið á Suðurlandi fái peninga til verkefnisins Kötlu jarðvangs? — eða eitthvað álíka. Það mætti t.d. spyrja okkur hv. þm. Jón Bjarnason hvort við værum á móti því að tiltekin verkefni í Norðvesturkjördæmi fengju peninga út úr þessum IPA-styrkjum.

Það er svo sérkennilegt að hluti af þessari aðlögun skuli vera að greiða fyrir verkefni af þessu tagi, sem ekki eru þráðbeint tengd því að breyta stofnanastrúktúr samfélagsins. Það blasir við að þarna er verið að smyrja tannhjólin. Það vita allir að þau hafa gengið fremur stirðlega, það hefur verið mikil andstaða og vaxandi andstaða meðal Íslendinga gagnvart aðildarumsókninni að Evrópusambandinu. Það er verið að greiða fyrir því, og ég ætla ekki að hafa stærri orð um það, að auka velvild í garð Evrópusambandsins með því að tengja Evrópusambandið uppbyggingu á tilteknum áhugaverðum verkefnum sem menn hafa áhuga á að vinna á einstökum svæðum. Auðvitað þekkja menn svona vinnubrögð. Fyrirtæki hafa t.d. gert þetta, búið sér til slíka ímynd eða velvild, og Evrópusambandið er klárlega að gera það.

Við sjáum af ýmsum þeim upptalningum sem fyrir liggja að þetta eru ekki verkefni sem eru tengd því að breyta stjórnsýslu Íslands, alls ekki. Þetta eru almenn verkefni sem við höfum í gegnum tíðina stutt í gegnum fjárlagagerðina, við sem höfum setið í fjárlaganefnd, eða barist fyrir í kjördæmi okkar. Við könnumst við þessi verkefni. Þetta eru verkefni sem við höfum ekki sinnt nægjanlega, ekki hafa verið lagðir nægjanlega miklir fjármunir í, ekki síst í vandræðum okkar upp á síðkastið. Þá kemur ESB, hinn góði stóri bróðir, með opið veskið og skrifaðir eru stórir tékkar fyrir þessi stóru og góðu verkefni. Síðan koma menn sem eru áhugasamir um að ganga í Evrópusambandið hingað upp og segja: Ekki eruð þið á móti þessu, ekki eruð þið á móti því að peningarnir fari í þessi fínu verkefni á Suðurlandi? — eða Norðvesturlandi eða eitthvað þess háttar og umræðan snýst þá ekki lengur um það hvort verið sé að breyta stofnanastrúktúr heldur um allt annað.

Af því að tími minn líður hratt vil ég segja að mér finnst sá galli vera við þetta mál að það er ekki stutt nægilega góðum upplýsingum. Ég sé t.d. hvorki í tillögu til þingsályktunar né nefndaráliti frá 1. minni hluta utanríkismálanefndar né heldur í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra nákvæmlega tilgreindar upphæðir í þau verkefni sem þó er búið að taka ákvörðun um. Það er vísað til þess í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra að landsáætlunin sem ég hef aðeins gert að umræðuefni feli í sér stuðning upp á 30 millj. evra sem eru um 5 milljarðar kr. sem eiga að borgast út á þremur árum, 2011, 2012 og 2013. Í þessari skýrslu kemur fram að fyrsta landsáætlunin hafi þegar verið afgreidd af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í samræmi við tillögu stjórnvalda, þ.e. tillögu íslenskra stjórnvalda. Þá vaknar spurningin: Hefur þessi upphæð verið reidd fram? Í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra kemur fram að landsáætlun 2011 eigi að fá 12 millj. evra sem varið verði til sjö verkefna sem eru tíunduð og er búið að taka ákvörðun um að 2 milljörðum kr. verði varið til einstakra verkefna.

Nú langar mig að spyrja þá sem betur þekkja til og kunna að hafa svör við þessu: Hafa þessir peningar verið reiddir fram? Er búið að borga þessa 2 milljarða kr. á árinu 2011? (Gripið fram í.) Hafa verið gerðar einhverjar skuldbindingar í þessum efnum? Hvernig víkur þessu við? Hér er gripið fram í að því hafi verið svarað í þessari umræðu. Það fer reyndar tvennum sögum af því. Ég hef ekki verið í aðstöðu til að fylgjast með allri þessari umræðu en ég hef ekki orðið var við svörin og ég hef reynt að afla mér upplýsinga um það hvort þetta liggi fyrir, hvort búið sé að greiða þessar upphæðir út að einhverju leyti. Það er mjög mikilvægt að það liggi að minnsta kosti fyrir vegna þess að samningurinn var gerður um mitt ár 2011. Við erum að tala um 2 milljarða kr. sem eru eyrnamerktir á árinu 2011 og síðan eru 3 milljarðar eftir sem á þá eftir að borga miðað við árin 2012 og 2013. Ef ekki er búið að borga út neitt af þessum peningum, er þá gert ráð fyrir því að þessir 5 milljarðar kr. dreifist frá miðju ári 2012? Það má ekki búast við því að þessi mál verði samþykkt fyrr en um mitt þetta ár og miðja þessa árs nálgast býsna hratt og þá er eftir hálft árið 2012 og árið 2013. Er þá hugsunin sú að þetta verði borgað út á lengri tíma eða hvernig verður það gert? Mér er kunnugt um að ýmsar þær stofnanir sem eru nefndar til sögunnar eru þegar farnar að vinna að beinum undirbúningi þess að taka á móti þessum fjármunum, m.a. með ýmsum fjárfestingum, eins og Hagstofan.

Af því að ég nefni Hagstofuna finnst mér líka dálítið óskýrt það sem segir um þau mál í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra. Þar er sagt varðandi Hagstofuna að hún fái á grundvelli landsáætlunar styrk til að endurbæta gerð þjóðhagsreikninga. Sagt er að það sé skortur á mikilvægum hagtölum sem valdi erfiðleikum við að meta stöðu einstakra atvinnugreina. Vaknar þá spurningin: Er þetta verkefni tengt aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu? Eða er þetta bara eitt af þeim verkefnum sem Hagstofan telur að þurfi að vinna betur? Ég ætla ekki að gera ágreining um það. Er það á einhvern hátt skilyrði þess að við getum sótt um aðild að Evrópusambandinu að Hagstofan láti vinna þessi verkefni? Í öðru lagi kemur fram að á grundvelli fjölþegaáætlunarinnar eigi Hagstofan að fá 1 millj. evra sem eru 170 millj. kr. til verkefna á sviði manntals, landbúnaðar, tölfræði, framleiðslureikninga o.s.frv. Mér er ekki ljóst hvort um sé að ræða fjölþegaáætlanir upp á 170 millj. kr. og síðan einhverja aðra styrki til Hagstofunnar upp á einhverjar aðrar upphæðir — þetta er allt saman óljóst. Ég tel mikilvægt að við fáum svör við þessu áður en umræðunni vindur (Forseti hringir.) mikið lengra fram til að við getum í raun og veru tekið nægilega skýra og upplýsta efnislega afstöðu til þessa (Forseti hringir.) máls.